Forráðamenn Aftureldingar segja að Guðrún Jóna Kristjánsdóttir sé samningsbundin félaginu og hafi því ekki leyfi til að semja við KR.
Heimildir Vísis herma að Guðrún Jóna muni taka við KR-ingum á næstunni en hún þjálfaði lið Aftureldingar/Fjölnis síðasta sumar.
Afturelding og Fjölnir ákváðu að slíta samstarfi sínu nú í haust en bæði lið hafa þó hug á að senda lið til þátttöku á Íslandsmótinu á næsta ári.
Afturelding mun þá keppa í úrvalsdeild og Fjölnir í 1. deildinni. Valdimar Leó Friðriksson hjá meistaraflokksráði kvenna hjá Aftureldingu segir því að ekki standi annað til en að Guðrún Jóna verði þjálfari liðsins.
„Hún er samningsbundin Aftureldingu og er það í eitt ár til viðbótar," sagði Valdimar. „Ef önnur félög hafa áhuga á að ráða hana þarf að ræða við okkur fyrst og hefur það ekki verið gert. Ef það hefur hins vegar verið gert í leyfisleysi er ljóst að við þurfum þá að kæra málið til KSÍ."
Á síðasta ári var þáverandi þjálfari Aftureldingar, Gareth O'Sullivan, ráðinn til KR. Hann hætti þar um mitt sumar.