Körfubolti

NBA í nótt: Boston vann án Garnett

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Paul Pierce í leiknum í nótt.
Paul Pierce í leiknum í nótt. Nordic Photos / Getty Images

Boston vann í nótt sigur á Phoenix, 128-108, í NBA-deildinni í körfubolta í nótt þó svo að Kevin Garnett hafi verið fjarverandi vegna meiðsla.

Amare Stoudemire lék heldur ekki með Phoenix þar sem hann verður frá næstu átta vikurnar að minnsta kosti eftir að hafa gengist undir uppskurð á auga.

Rajon Rondo bætti persónulegt met er hann skoraði 32 stig en hann gaf þar að auki tíu stoðsendingar í leiknum. Ray Allen var með 31 stig og Paul Pierce 26.

Jason Richardson skoraði 21 stig fyrir Phoenix en þetta var fyrsta tap liðsins síðan að Alvin Gentry tók við þjálfun þess. Hann hafði unnið sína fyrstu þrjá leiki. Steve Nash var með nítján stig og ellefu stoðsendingar.

Cleveland vann Detroit, 99-78. Delonte West skoraði 25 stig og LeBron James bætti við 20 fyrir Cleveland.

Toronto vann New York, 111-100. Andrea Bargnani var með 28 stig og tíu fráköst.

Indiana vann Chicago, 98-91. Troy Murphy var með 27 stig en þrátt fyrir sigurinn náði Indiana ekki að skora utan af velli á ellefu mínútna kafla í síðari hálfleik.

Houston vann Charlotte, 99-78. Ron Artest skoraði 26 stig og Yao Ming nítján fyrir Houston.

Milwaukee vann Denver, 120-117. Charlie Villanueva skoraði 36 stig í leiknum, þar af níu í fjórða leikhluta.

Orlando vann Miami, 122-99. Dwight Howard skoraði 32 stig og tók sautján fráköst í leiknum. Dwyane Wade fór á kostum í liði Miami og skoraði 50 stig en það dugði ekki til.

Portland vann LA Clippers, 116-87. LaMarcus Aldridge skoraði 28 stig fyrir Portland og Brandon Roy 20. Steve Blake jafnaði met er hann gaf fjórtán stoðsendingar í einum og sama leikhlutanum (þeim fyrsta) en alls var hann með sautján stoðsendingar.

LA Lakers vann Minnesota, 111-108. Kobe Bryant var með 28 stig fyrir Lakers.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×