Körfubolti

Houston-Dallas í beinni í nótt

NordicPhotos/GettyImages

Leikur Houston Rockets og Dallas Mavericks í NBA deildinni verður sýndur beint á Stöð 2 Sport klukkan eitt eftir miðnætti.

Hér er á ferðinni hörkueinvígi gamalla erkifjenda frá Texas, en liðin eru með nánast sama vinningshlufall í deildinni.

Houston er í þriðja sæti í Suðvesturriðlinum með 33 sigra og 21 tap, en Dallas er í því fjórða með 32 sigra og 21 tap í þessum langsterkasta riðli í NBA deildinni.

Houston spilar í kvöld fyrsta leikinn eftir að ljóst varð að skotbakvörðurinn Tracy McGrady kæmi ekki meira við sögu hjá liðinu á leiktíðinni, en hann þarf að fara í uppskurð á hné. McGrady hefur spilað í deildinni í ellefu ár en hefur aldrei komist upp úr fyrstu umferð í úrslitakeppninni.

Houston hefur unnið þrjá leiki í röð og hefur raunar unnið 13 af 19 leikjum án McGrady í vetur.

Houston og Dallas hafa mæst tvisvar í vetur og unnust báðir leikir á útivelli. Dallas hefur unnið fjóra leiki í röð í Houston og hefur ekki tapað þar í borg síðan í nóvember 2006.

Houston hefur unnið fimm heimaleiki í röð og hefur alls unnið 20 af 26 leikjum heima í vetur. Dallas hefur unnið 14 leiki á útivelli en tapað 13.



NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×