Handbolti

Róbert: Þetta var hræðilegur leikur

Henry Birgir Gunnarsson í Laugardalshöll skrifar
Mynd/Stefán

Róbert Gunnarsson átti sannkallaðan stórleik fyrir íslenska landsliðið í kvöld. Skoraði 5 mörk úr 5 skotum, fiskaði 6 víti og tíndi hvern Lettann á fætur öðrum af velli.

"Við vissum ekki mikið um Lettana og það var pottþétt vanmat í gangi af okkur hálfu. Þetta var hræðilegur leikur hjá okkur og se betur fer kom Hreiðar og varði vel. Þetta var vinnusigur og lítið gott um leikinn að segja," sagði Róbert.

Hann leikur undir stjórn landsliðsþjálfarans, Guðmundar Guðmundssonar, hjá Rhein-Neckar Löwen og hefur lítið fengið að spila upp á síðkastið. Var hann að sýna Guðmundi í kvöld að hann væri að gera mistök með því að láta hann ekki spila meira?

"Ég er mikið búinn að hugsa um hvernig ég ætti að svara þessari spurningu og hef ákveðið að tjá mig ekki um það," sagði Róbert kíminn.

"Maður verður að geta eitthvað þegar maður fær að spila og það gekk vel í dag hjá mér."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×