Handbolti

Þeir ungu undirbúnir fyrir HM í Svíþjóð

Hjalti Þór Hreinsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson.
Guðmundur Guðmundsson. Fréttablaðið/Vilhelm
Íslenska landsliðið í handbolta spilar næstu leiki sína á heldur framandi slóðum. Liðið leggur upp í 20 klukkustunda ferðalag til Brasilíu þar sem það leikur tvo æfingaleiki í næstu viku.

iðið fer út á sunnudaginn og flýgur til Frankfurt í Þýskalandi, þar sem það þarf að bíða í tíu klukkutíma, þaðan fer það í þrettán tíma flug til Sao Paulo og síðan nokkurra tíma flug innanlands í Brasilíu áður en það er komið á áfangastað, Espírito Santo, á mánudaginn. Leikirnir eru 16. og 18. júní.

Nokkrar breytingar hafa orðið á landsliðinu frá leikjunum gegn Dönum í vikunni. Sverre Jakobsson fer ekki með þar sem hann giftir sig á Akureyri í dag, Hreiðar Levy Guðmundsson spilar með Emsdetten um helgina í umspilsleik um laust sæti í þýsku úrvalsdeildinni og bæði Róbert Gunnarsson og Alexander Petersson fá frí.

Þá verða markvarðaskipti í hópnum þar sem Aron Rafn Eðvarðsson er meiddur. Í hans stað kemur Pálmar Pétursson og því fer FH-ingur inn í landsliðið í stað Haukamanns. Bæði Pálmar og Aron hafa spilað þrjá landsleiki.

Liðið fer til Brasilíu og leggur þar með á sig langt ferðalag fyrir tvo leiki gegn liði sem er ekki mjög hátt skrifað í handboltanum en Guðmundur Guðmundsson þjálfari segir að hann sé ekki í nokkrum vafa um að leikirnir muni nýtast vel. „Við höfðum ekki marga valkosti og erum í raun heppnir að fá þessa leiki. Ég lagði mikið upp úr að fá alvöru leiki og við þurfum á þessu að halda. Brasilía er sýnd veiði en ekki gefin og við fáum helling út úr þessu," sagði Guðmundur sem er þegar byrjaður að undirbúa liðið fyrir HM í Svíþjóð í janúar.

Guðmundur segir að hann sé að breikka grunnhóp landsliðsins sem er ætlað að fara á HM. Því ætli hann að nota ungu mennina í hópnum meira en gegn Dönum. „Við lögðum þetta þannig upp frá byrjun að nota ungu mennina mikið gegn Brasilíu en kannski minna gegn Dönum. Menn eins og Ólafur Guðmundsson, Sigurbergur Sveinsson, Rúnar Kárason, Arnór Gunnarsson, Kári Kristján Kristjánsson og Oddur Gretarsson fá að spila mikið núna. Við þurfum að nýta þann tíma sem við höfum fram að HM og við erum að breikka hópinn," segir Guðmundur.

Það verður ekki bara æfður og spilaður handbolti í Brasilíu heldur er ætlunin að hrista strákana vel saman. „Við tökum þetta handboltalega föstum tökum en við ætlum jafnframt að njóta þess að vera á framandi slóðum. Það er eitt og annað planað, það verður hörku dagskrá þarna úti," sagði Guðmundur dulur en ljóstraði því upp að meðal annars verði horft á Brasilíumenn spila á HM í knattspyrnu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×