Skoðun

Flokksvél Sjálfstæðisflokksins opnuð

Svavar Gestsson skrifar
Í stórmerkri bók sinni um Gunnar Thoroddsen opnar Guðni Jóhannesson margt upp á gátt sem til þessa hefur verið lokað. Eitt er ógnarsterk flokksvél Sjálfstæðisflokksins. Þar er fróðlegt um að litast. Þar segir til dæmis af því að Reykjavík var 1957 skipt í 120 umdæmi og voru 5-10 fulltrúar í hverju umdæmi og voru samtals 654 fulltrúar snemma árs 1957. Þessir fulltrúar skráðu stjórnmálaskoðanir nágranna sinna og voru þær upplýsingar færðar í skrár í Valhöll í höfuðstöðvum flokksins við Suðurgötu.

Á vinnustöðum var öflugt trúnaðarmannakerfi og sama ár átti Sjálfstæðisflokkurinn 392 skráða trúnaðarmenn á vinnustöðum í Reykjavík. Þetta ár hafa íbúar Reykjavíkur sennilega verið rétt um 70 þúsund talsins. Þegar kom fram undir 1980 töldu menn í Sjálfstæðisflokknum að þetta kerfi væri gagnslaust en ekki allir: „Sumir vildu leggja þær (merkingarnar) niður en aðrir mölduðu í móinn, meðal annars með þeim rökum að „oft er leitað til flokksskrifstofunnar varðandi upplýsingar (atvinnurk o fl)." Mega það teljast athyglisverð orð." Segir Guðni.

Með öðrum orðum, atvinnurekendur hringdu í Sjálfstæðisflokkinn til að gá hvort óhætt væri að ráða viðkomandi einstakling í vinnu. Við ráðningar hjá hernum gilti formúlan 4-4-2, segir í bókinni, það er 4 frá íhaldinu, 4 frá framsókn og 2 kratar.

Flokksvél Sjálfstæðisflokksins var ógnarsterk. Hún skipulagði ekki aðeins atkvæði fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Líka Alþýðuflokkinn svo hann lifði af: Gunnar Thoroddsen skipulagði á laun, væntanlega í samráði við forystusveit flokksins, að allstór hópur sjálfstæðismanna kysi Alþýðuflokkinn í sumarkosningunum 1959. Reyndin varð sú að í Reykjavík fær hann nær 2.000 fleiri atkvæði en í bæjarstjórnarkosningunum árið áður. Gylfi Þ. Gíslason hlaut kosningu og varð eini kjördæmakjörni þingmaðurinn í sínum flokki. Og fyrir kosningarnar 1958 handsalar Gunnar við Magnús Ástmarsson að hann yrði til taks í nýjan meirihluta með Sjálfstæðisflokknum undir forystu Gunnars - ef þyrfti. Sem þurfti svo ekki af því að Sjálfstæðisflokkurinn fékk tíu menn en sósíalistar kölluðu Magnús samt alltaf Magnús ellefta.

Á laun lét Bjarni Benediktsson skipuleggja um þúsund manna lið traustra sjálfstæðismanna sem gætu myndað órofa vegg á Reykjavíkur(?)- flugvellinum og þannig komið í veg fyrir að verkfallsverðir trufluðu flugferðir: Löglega boðað verkfall átti að brjóta á bak aftur með ólöglegu liði.

Þetta eru upplýsingar um ógnartíð kalda stríðsins. Það þarf að skrifa meira um þessa tíma. En Guðni á þakkir skildar.




Skoðun

Sjá meira


×