Skoðun

Nútímalegt Alþingi

Siv Friðleifsdóttir skrifar

Alþingi, löggjafarvaldið, er ein mikilvægasta stofnun réttar­ríkisins. Starfshættir Alþingis hafa verið mjög til umræðu og skoðunar meðal almennings á síðustu misserum, sérlega í kjölfar bankahrunsins. Umræðuhefð Alþingis hefur verði hluti af þeirri umfjöllun. Alþingismenn hafa líka margir kallað á nútímalegri vinnubrögð m.a. í ljósi nýrrar reynslu. Rétt væri að skipuleggja vinnu þingsins betur til að freista þess að auka traust almennings til Alþingis og bæta ásýnd þess.

Hér á Íslandi er umræðuhefð þingsins fyrir löngu orðin úrelt. Ekki er reynt að áætla hvað hver umræða taki mikinn tíma hverju sinni miðað við eðli mála. Greinarhöfundur hefur því lagt fram frumvarp á Alþingi til að bæta úr. Í frumvarpinu, sem tekur mið af reglum í norska Stórþinginu, er lagt til að áður en umræða hefst um mál á þingi getur forseti gert tillögu um hve umræðan skuli standa lengi.

Við upphaf 2. og 3. umræðu um lagafrumvörp og síðari umræðu um þingsályktunartillögur skal tillaga forseta um hve lengi umræðan má standa taka mið af óskum nefnda um heildartíma umræðu. Ekki mætti þó takmarka umræðu þ. a. hún stæði skemur en 3 klst. alls.

Tillögur forseta yrðu bornar umræðulaust undir atkvæði og réði afl atkvæða úrslitum. Í tillögu forseta yrði ræðutíma skipt jafnt á milli þingflokka að hluta og að hluta eftir þingmannafjölda þingflokks.

Umræða yrði þó ekki takmörkuð þegar fjallað er um frumvörp til fjárlaga og breytingar á stjórnarskrá.

Nefndir þingsins hafa getu og burði til að áætlað umræðutíma þannig að hvert mál fái næga og vandaða umfjöllun.



Málþóf úreltMálþóf er aldagömul aðferð til að stöðva mál og á rætur sínar að rekja til Rómaveldis. Vinsældir þess eru litlar og tíðkast það aðeins í örfáum löndum í dag. Málþóf þekkist ekki hjá öðrum Norðurlandaþjóðum. Oftast er það stjórnarandstaða hvers tíma sem stundar málþóf. Engir íslensku stjórnmálaflokkanna eru hér undanskildir. Hafa þeir allir stundað málþóf í einhverjum mæli eftir því hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu í það sinnið.

Rökin fyrir málþófi eru að með því má skapa samningsaðstöðu í lok hverrar þinglotu þ.a. allir flokkar fái eitthvað fyrir sinn snúð. Þannig nái einstök mál fram að ganga eða ekki og þegar um slíkt hefur samist leggst málþófið niður. Hafa sumir reynt að færa rök fyrir því að málþóf sé eðlilegur hluti af lýðræðinu því þannig neyðist meirihlutinn til að taka tillit til minnihlutans. Slík rök vega ekki mjög þungt. Rök eru fyrir því að málþóf sé lýðræðinu heldur skaðlegra en hitt því það grefur undan trausti á Alþingi almennt.

Þingmenn hafa þó fært þau rök fram að málþóf sé ein fárra leiða sem stjórnarandstaðan hefur til að hafa áhrif á framgang mála á Alþingi, sérlega undir þinglokin. Til að koma til móts við þau sjónarmið og vegna frekar veikrar stöðu stjórnarandstöðu á Alþingi miðað við stöðu hennar í öðrum norrænum þjóðþingum, er rétt að samhliða þessari breytingu á þingsköpum væri staða stjórnarandstöðunnar styrkt t.d. með því að hluti formanna fastanefnda þingsins kæmi úr hennar röðum, minnihluti þingsins gæti knúið á um að umdeild mál færu í þjóðaratkvæðagreiðslu og önnur slík atriði.



Ferskir vindarÍ síðustu kosningum árið 2009 varð mesta endurnýjun þingmanna frá upphafi, en þá komu inn 27 nýir þingmenn, eða 43%. Í kosningunum 2007 komu 24 nýir þingmenn á þing og hefur því orðið meiri endurnýjun á Alþingi á tveimur árum en nokkru sinni í sögunni. Alls hafa því 42 þingmenn af 63, eða um 2/3 hlutar þingsins endurnýjast á skömmum tíma. Konur hlutu líka bestu kosningu frá upphafi og eru 43% þingmanna. Þessu fylgja ferskir vindar.

Margir hinna nýju þingmanna hafa gert eðlilegar kröfur um bætt vinnubrögð og að gefnar séu vinnuáætlanir sem standist dag frá degi. Þannig geti þingmenn undirbúið ræður sínar á Alþingi og áætlað tíma fyrir önnur verkefni s.s. störfum í kjördæmi, flokksstarfi og samveru með fjölskyldu. Nú er lag að bæta umræðuhefð Alþingis. Áætlum ræðutíma um mál og afnemum málþófið. Styrkjum samhliða stöðu stjórnarandstöðunnar til að skapa breiða sátt um afnám þess. Grípum tækifærið.






Skoðun

Sjá meira


×