Golf

Kaymer nýr besti kylfingur heims

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Martin Kaymer frá Þýskalandi er bestur í golfi.
Martin Kaymer frá Þýskalandi er bestur í golfi. Mynd/AP
Þjóðverjinn Martin Kaymer verður á toppi heimslistans í golfi þegar nýr listi verður kynntur á mánudag. Hann verður þar með besti kylfingur heims og fer upp fyrir Englendinginn Lee Westwood sem verið hefur efstur undanfarna mánuði.

Kaymer náði þessum áfanga með að komast í úrslit á Heimsmótinu í holukeppni sem fram fer í Arizona, Bandaríkjunum. Kaymer hafði betur gegn Bubba Watson frá Bandaríkjunum í undanúrslitum. Hann mun leika gegn Englendingnum Luke Donald í úrslitum en Donald lagði bandaríska kylfinginn Matt Kuchar örugglega af velli í gær.

„Það hefur aðeins tekið mig fimm ár að komast í efsta sætið. Fyrir mig sjálfan, fjölskyldu og samstarfsmenn er þetta stór áfangi. Ég var ekki að hugsa um efsta sætið í leiknum gegn Watson þar sem ég var viss um að ég fengi þetta tækifæri á næstu vikum," sagði hinn 26 ára Kaymer sem hefur skotist hratt upp á stjörnuhiminn í golfheiminum á undanförnum árum.

Takist Luke Donald að leggja Kaymer að velli í dag fer Donald upp í þriðja sæti heimslistans. Það þýðir að Tiger Woods verður í fimmta sæti heimslistans á mánudag, Woods var um árabil besti kylfingur heims en virðist nú á hraðri niðurleið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×