Handbolti

Halldór rekinn frá Haukum - Gunnar Berg og Birkir Ívar taka við

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Halldór Ingólfsson.
Halldór Ingólfsson.
Halldór Ingólfsson var í dag rekinn sem þjálfari karlaliðs Hauka í N1 deild karla í handbolta. Halldór tók við liði Hauka síðasta sumar af Aroni Kristjánssyni sem hafði gert Hauka að Íslandsmeisturum tvö í röð. Gunnar Berg Viktorsson og Birkir Ívar Guðmundsson taka við liðinu samkvæmt heimildum ruv.is.

Haukar eru eins og er í 5. sæti N1 deildar karla, einu stigi á eftir HK sem er í 4. sæti. Fjögur efstu liðin komast í úrslitakeppnina. Síðasti leikur Hauka undir stjórn Halldórs var jafnteflisleikur á móti botnliði Selfoss á mánudagskvöldið en Haukaliðið er aðeins búinn að vinna einn sigur í síðustu fimm leikjum sínum.

Aron Kristjánsson, var rekinn frá Hannover-Burgdorf á dögunum og er því á lausu en hann mun þó ekki taka við liðinu samkvæmt heimildum Ríkissjónvarpsins. Samkvæmt frétt þeirra taka tveir leikmenn liðsins við liðinu, markvörðurinn Birkir Ívar Guðmundsson og Gunnar Berg Viktorsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×