Handbolti

Átján leikja sigurganga AG á enda - Arnór með 9 mörk í jafntefli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Atlason
Arnór Atlason Mynd/Heimasíða AG
AG Kaupmannahöfn tapaði sínum fyrstu stigum í dönsku úrvalsdeildinni frá því í september þegar liðið fékk Bjerringbro-Silkeborg í heimsókn í kvöld. Leikurinn endaði með 26-26 jafntefli.

Arnór Atlason átti stórleik og var markahæstur hjá AG með níu mörk alveg eins og Mikkel Hansen en Snorri Steinn Guðjónsson skoraði 1 mark. Arnór kom AG í 25-23 í lokin en danski landsliðsmarkvörðurinn Nicklas Landin lokaði marki sínu á lokasprettinum og Bjerringbro-Silkeborg tryggði sér jafntefli.

AG Kaupmannahöfn var búið að vinna 18 deildarleiki í röð fyrir leikinn í kvöld og var aðeins búið að tapa einu stigi í 21 leik en það gerðist í heimaleik á móti Skjern 19. september síðastliðinn.

Bjerringbro-Silkeborg var aðeins í áttunda sæti deildarinnar fyrir leikinn og í harðri baráttu um að tryggja sér sæti í úrslitakeppninni.

AG Kaupmannahöfn jók samt forskot á toppnum upp í ellefu stig því næstu tvö lið, Aarhus og Skjern, töpuðu bæði sínum leikjum í kvöld.  Skjern tapaði 30-35 fyrir Aab Álaborg og Aarhus tapaði 31-35 fyrir Nordsjaelland.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×