Körfubolti

Nick Bradford aftur til Grindavíkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nick Bradford.
Nick Bradford. Mynd/Rósa
Víkurfréttir segja frá því á vefsíðu sinni í kvöld að Nick Bradford sé á leiðinni til Grindavíkur og muni klára tímabilið með liðinu. Bradford fór á kostum með Grindavíkurliðinu veturinn 2008 til 2009 en hann þekkir allt körfuboltaáhugafólk á Íslandi endaer Bradford búinn að spila hér mörgum sinnum á síðasta áratug.

Bradford hefur leikið með öllum Suðurnesjaliðunum, Keflavík, Njarðvík og Grindavík, á síðustu tveimur tímabilum en hann spilaði bæði fyrir Njarðvík og Keflavík á síðustu leiktíð. Bradford hafði áður orðið tvisvar sinnum Íslandsmeistari með Keflavík árin 2004 og 2005.

Samkvæmt þessu hafa Grindvíkingar látið bandaríska bakvörðinn Kevin Sims fara en Sims klikkaði meðal annars á 14 af 16 skotum sínum í bikarúrslitaleiknum á móti KR um síðustu helgi þar sem Grindavík tapaði með 22 stiga mun.

Bradford var í miklum ham í Grindavíkurbúningnum veturinn 2008-2009 þegar Grindavík var einu skoti frá því að vinna Íslandsmeistaratitilinn. Bradford var þá með 20,4 stig, 6,5 fráköst og 3,2 stoðsendingar að meðaltali í leik en í úrslitakeppninni var hann með 23,7 stig að meðaltali.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×