Körfubolti

KR-ingar frábærir í seinni hálfleik og 1-0 yfir á móti Njarðvík

Elvar Geir Magnússon skrifar
Marcus Walker.
Marcus Walker. Mynd/Daníel
Marcus Walker fór í gang í seinni hálfleik og KR-ingar unnu öruggan tólf stiga sigur, 92-80, á Njarðvík í fyrsta leik liðanna í einvígi þeirra í átta liða úrslitum Iceland Express deildar karla. KR er því 1-0 yfir en næsti leikur er í Njarðvík á sunnudagskvöldið.

Marcus Walker skoraði 27 af 33 stigum sínum í seinni hálfleik og var aðalmaðurinn á bak við að KR vann seinni hálfleikinn 59-42. Brynjar Þór Björnsson átti líka mjög góðan leik og skoraði 20 stig. Melzie Moore skoraði 20 stig fyrir Njarðvík og Giordan Watson skoraði 12 stig.

Gestirnir frá Njarðvík byrjuðu leikinn betur. Það virtist vera ákveðið stress í KR-ingum sem voru ekki að spila sem lið og hittu illa. Njarðvík var fjórum stigum yfir eftir fyrst fjórðung.

Sá annar einkenndist af mikilli baráttu og var mönnum orðið ansi heitt í hamsi. Nokkrir vafasamir dómar hjálpuðu ekki til að lækka hitann og gott að leikhlutinn var ekki lengri því það var öllum fyrir bestu að komast inn í klefa og róa aðeins taugarnar.

Það gerði KR-ingum allavega gott því þeir komu gríðarlega öflugir til leiks eftir hlé. Staðan var 33-38 í hálfleik en með frábærri byrjun komst KR loks yfir 44-42 og vakti það stuðningsmenn þeirra sem höfðu vægast sagt látið lítið fyrir sér fara fram að þessu.

Stemningin var algjörlega heimamanna og Njarðvíkingar brotnuðu hægt og rólega. Staðan 62-56 fyrir lokafjórðunginn. Þar kláruðu Vesturbæingar leikinn fagmannlega, voru í flottum takti með sjóðheitan Marcus Walker í fararbroddi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×