Körfubolti

Davíð Páll og Darko biðjast afsökunar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Davíð Páll Hermannsson í leik með Haukum.
Davíð Páll Hermannsson í leik með Haukum. Mynd/Arnþór
Haukamaðurinn Davíð Páll Hermannsson og KFÍ-maðuriinn Darko Milocevic hafa báðir sent frá sér fréttatilkynningu, sitt í hvoru lagi, þar sem þeir biðjast innilegrar afsökunar á framkomu sinni í leik Hauka og KFÍ í lokaumferð Iceland Express deildar karla í gærkvöldi.

Davíð og Darko lentu í slagsmálum sem enduðu með því að fleiri leikmenn beggja liða komu inn á völlinn og lauk með því að dómarar leiksins ráku alls átta menn út úr húsi. Darko átti fyrsta höggið en Davíð Páll svaraði í sömu mynd.



Yfirlýsing frá Davíð Pál Hermannssyni

"Ég, Davíð Páll Hermannsson, biðst innilegrar afsökunar á óíþróttmannslegri framkomu minni í leik Hauka og KFÍ í gærkvöldi.

Hvorki deildin, leikmenn liðanna, dómarar né áhorfendur eiga að þurfa að horfa upp á slíkt agaleysi af minni hálfu.

Ég ábyrgist að þetta mun ekki koma fyrir aftur og bið aftur alla hlutaðeigandi afsökunnar.

Davíð Páll Hermannsson."



Yfirlýsing frá Darko Milocevic

"Ég undirritaður Darko Milocevic leikmaður Körfuknattleiksfélags Ísafjarðar harma það atvik sem átti sér stað í leik Hauka og KFÍ í Iceland Express deildinni í gærkvöld. Slík háttsemi á ekki heima í íþróttum og vil ég biðja liðsmenn Hauka og aðra aðstandendur félagsins ásamt dómurum leiksins innilegrar afsökunar á hegðun minni. Einnig vil ég biðja liðsfélaga mína og stuðningsfólk KFÍ afsökunar á að hafa brugðist þeim.

Ég mun kappkosta að leika af heiðarleika og láta þetta atvik mér að kenningu verða.

Virðingafyllst.

Darko Milocevic."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×