Körfubolti

Sigurður: Gaman að fá einhvern til að slást við

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sigurður Gunnar Þorsteinsson.
Sigurður Gunnar Þorsteinsson.
Sigurður Gunnar Þorsteinsson, miðherjinn sterki í liði Keflavíkur, óttast ekki að rimman gegn ÍR í fjórðungsúrslitum Iceland Express-deild karla muni sitja í liðinu þegar það mætir KR í fyrsta leik í undanúrslitum í kvöld.

Keflavík vann nauman sigur á ÍR í framlengdum oddaleik liðanna í síðustu viku á meðan að KR fékk nokkurra daga hvíld eftir 2-0 sigur á Njarðvík í sinni rimmu í fjórðungsúrslitunum.

„Nei, engan veginn. Við erum búnir að afgreiða hana,“ sagði Sigurður um rimmuna gegn ÍR. „Við gerðum það sem við þurftum að gera - spiluðum vörn og hún vinnur titla.“

Hann á þó von á öðruvísi leikjum í næstu rimmu en þeirri síðustu. „ÍR var ekki með neina stóra menn og þarf ég því að slást við fleiri leikmenn. Keflavík og KR eru líka nokkuð jöfn í flestum stöðum og því er líklegt að þetta verði hörkuleikir og mikil barátta.“

„Ég held að það lið sem sýni meiri baráttu og leikgleði muni vinna þessa seríu. En við förum í alla leik til að vinna og þannig verður það einnig í kvöld.“

„Við vitum vel hvað þarf að gera. Það eru ekki nema þrír leikmenn í hópnum sem hafa ekki orðið Íslandsmeistarar, þar af eru tveir útlendingar. Við vitum hvað þarf til.“

Hann á einnig von á skemmtilegri rimmu við KR-inginn Fannar Ólafsson á báðum endum vallarins. „Ég hef gaman að því og langskemmtilegast að spila þegar maður fær einhvern til að slást við. Vonandi fáum við að gera það, svo lengi sem við göngum ekki yfir strikið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×