Lánið sem Landsvirkjun hefur fengið frá Evrópska fjárfestingarbankanum (EIB) upp á 11,3 milljarða kr. er óbeint háð lausn á Icesave deilunni. Ljóst er að Landsvirkjun mun ekki draga á þetta lán fyrr en eftir 9. apríl þegar þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave er lokið.
Hörður Árnason forstjóri Landsvirkjunar segir að í lánasamningnum við EIB sé ákvæði um lágmarks lánshæfiseinkunn ríkissjóðs það er lánshæfið má ekki falla niður í svokallaðan ruslflokk.
Sem stendur er lánshæfiseinkunn ríkissjóðs hjá matsfyrirtækinu Moody´s einu haki fyrir ofan ruslflokk með neikvæðum horfum. Moody´s sagði í áliti fyrr í vetur að lánshæfiseinkunn ríkissjóðs yrði endurskoðuð þegar séð verður hvernig lyktir verða á Iceasave málinu í apríl.
Hörður Árnason segir að með þessum hætti sé lausn á Icesave deilunni óbeint tengd inn í lánasamninginn við EIB og ljóst að lánið fæst ekki afgreitt ef Moody´s fellir lánshæfi ríkissjóðs um einn flokk.
Hér má geta þess að lánshæfi ríkissjóðs er þegar í ruslflokki hjá matsfyrirtækinu Fitch Ratings en hjá Standard & Poor´s er lánshæfið einu haki frá ruslinu eins og hjá Moody´s. Álit Moody´s hefur þó mesta vigt af þessum þremur matsfyrirtækjum þar sem Moody´s metur einnig lánshæfi Landsvirkjunar og Íbúðalánasjóðs.
Hvað varðar framgang fjármögnunar fyrir Búðarhálsvirkjun er Hörður ánægður með þróunina. Með láni EIB sé nú búið að fjármagna um 75% af virkjunarframkvæmdunum. „Og ef allt fer á besta veg fyrir okkur mun það ekki verða neitt vandamálið að fjármagna afganginn," segir Hörður.
