Körfubolti

Shouse: Of mikill snjór til að fara í sumarfrí

Jón Júlíus Karlsson í Ásgarði skrifar
Hvert fór Grindjáninn? Shouse er hér varnarlaus gegn leikmanni Grindavíkur í kvöld. Mynd/Valli
Hvert fór Grindjáninn? Shouse er hér varnarlaus gegn leikmanni Grindavíkur í kvöld. Mynd/Valli
„Þetta eru frábær úrslit og í hvert sinn sem maður er með bakið upp við vegg þá þarf maður á góðri frammistöðu að halda. Við vorum frábærir í kvöld. Það er alltof mikill snjór úti til að fara í sumarfrí," sagði Justin Shouse, leikmaður Stjörnunnar kátur eftir liðið hafði betur gegn Grindavík, 91-74 í 8-liða úrslitum úrslitakeppninnar í körfuknattleik.

Stjarnan tryggði sér um leið oddaleik um sæti í undanúrslitum.

„Við lögðum mikla vinnu í að bæta okkur varnarlega frá síðasta leik og það sýndi sig í kvöld. Okkur tókst að setja mikla pressu á þá og koma þeim í vandræði. Einnig náðum við að halda Ryan (Pettinella) niðri í kvöld sem er erfitt því hann er vaxinn eins og naut," sagði Shouse sem skoraði 23 stig í kvöld og gaf sjö stoðsendingar.

Stjörnumenn fá nú möguleika á að tryggja sig inn í undanúrslit og leika í Grindavík í oddaleiknum. Shouse er bjartsýnn á að liðið geti náð þeim áfanga.

„Það verður erfitt að fara aftur til Grindavíkur en við sendum skilaboð í kvöld og við vitum hvað þarf til að vinna. Ef við sýnum okkar besta leik þá munum við vinna."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×