Körfubolti

Guðjón: Veturinn undir í næsta leik

Óskar Ófeigur Jónsson í Sláturhúsinu skrifar
"Þetta var bara ömurlegt og við klúðrum leiknum í fjórða leikhluta," sagði Guðjón Skúlason, þjálfari Keflavíkur eftir 18 stiga tap á móti KR á heimavelli í öðrum leik liðanna í undanúrslitaeinvígi þeirra í Iceland Express deildinni. KR gerði út um leikinn með því að vinna lokaleikhlutann 32-17 en liðið vann leikinn 105-87.

"Við vorum ekki nógu skynsamir eða bara ekki nógu góðir í endann. Við gerum alltof mikið af mistökum sem kosta okkur ódýrar körfur hjá þeim og svo erum við ekkert að gera hinum megin. Það var léleg sóknarnýting hjá okkur í kvöld," sagði Guðjón.

"Við verðum að halda áfram. Við missum alltaf einbeitingu og það má ekki á móti liði eins og KR. Það er ekki hægt að gefa þeim neinar glufur," sagði Guðjón en nú verður Keflavík að vinna þrjá leiki í röð til þess að komast í úrslitaeinvígið..

"Nú er bara veturinn undir í næsta leik. Nú er þetta bara spurning um hversu sterkir mínir menn eru bæði líkamlega og andlega á föstudaginn. Ef það er eitthvað lið sem getur komið til baka þá er það Keflavík. Við þurfum bara að gíra okkur inn á föstudaginn og taka á því. Þetta eru hörkuleikir en við megum bara ekki brotna," sagði Guðjón en það má sjá allt viðtalið við hann með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×