Körfubolti

Pavel: Við erum mjög sterkir andlega

Óskar Ófeigur Jónsson í Sláturhúsinu skrifar
Pavel var magnaður í kvöld. Mynd/Vilhelm
Pavel var magnaður í kvöld. Mynd/Vilhelm
Pavel Ermolinskij átti flottan leik í kvöld þegar KR komst í 2-0 í undanúrslitaeinvíginu á móti Keflavík eftir sannfærandi 18 stiga sigur í Keflavík í gærkvöldi. Pavel endaði leikinn með 17 stig, 15 fráköst, 8 stoðsendingar og 5 stolna bolta.

"Þetta var frábær sigur og við allir höfðum mjög góða tilfinningu fyrir þessum leik. Það var mikil ró yfir liðinu og við vissum alveg hvað við áttum að gera. Við vissum að ef við myndum gera það þá myndum við koma okkur í þá stöðu til að geta unnið leikinn. Það er alltaf gott að geta mætt í leik þegar þú veist hvað þú átt að gera," sagði Pavel eftir leikinn.

"Við breytum ekki okkar leik fyrir neinn og það er okkar leikur að keyra upp hraðann. Auðvitað vilja Keflvíkingar líka spila á þessum hraða en mér finnst við gera það betur en þeir og önnur lið. Við höfðum ekki breytt okkar leik fyrir neinn í vetur og leyfum bara hinum liðunum að hafa áhyggjur af okkur. Við spilum bara okkar leik og treystum á sjálfa okkur. Út frá því gerist það sem gerist," sagði Pavel sem var ánægður með allt liðið.

"Þetta er mjög samheldið lið og það eru allir að spila mjög vel. Stóru strákarnir eru að sýna frábæra baráttu undir körfunni og voru að taka fleiri, fleiri risastór sóknarfráköst fyrir okkur. Við spiluðu líka frábæra vörn í seinni hálfleik og allt liðið fær toppeinkunn," sagði Pavel.

"Við erum mjög sterkir andlega og þar liggur lykillinn hjá okkur núna. Það er ekki spilamennskan heldur er þetta ró og yfirvegun sem er yfir liðinu. Við vitum hvað við eigum að gera og spilum út frán því," sagði Pavel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×