Körfubolti

Ótrúlegar sviptingar í Keflavík

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Lisa Karcic í leik með Keflavík. Hún tryggði sínum mönnum sigur í dag.
Lisa Karcic í leik með Keflavík. Hún tryggði sínum mönnum sigur í dag.
Keflavík er komið í 1-0 í úrslitarimmunni gegn Njarðvík í Iceland Express-deild kvenna eftir sigur í æsispennandi leik, 74-73.

Liðin höfðu skipst á að vera með forystuna í leiknum en Dita Liepkalne kom Njarðvík yfir, 73-72, með þriggja stiga körfu þegar fimm sekúndur voru til leiksloka.

Það virtist ætla að verða lokatölur leiksins en Jón Halldór Eðvaldsson, þjálfari Keflavíkur, tók leikhlé þegar fimm sekúndur voru til leiksloka.

Hann lagði upp kerfi sem ekki gekk upp, því að boltinn gekk laus í teignum í sekúndubrot áður en að Lisa Karcic hrifsaði hann til sín og skilaði honum snyrtilega í körfuna, rétt áður en leiktíminn rann út. Ótrúlegar lokasekúndur en Keflavík stóð uppi sem sigurvegari.

Njarðvík hafði forystuna eftir fyrri hálfleik, 38-34, en Keflavík tók frumkvæðið í seinni hálfleik og leiddi lengst af í þriðja leikhluta.

Njarðvíkingar voru þó yfirleitt skrefinu á undan í fjórða leikhluta en leikurinn var svo í járnum síðustu mínúturnar.

Marina Caran var stigahæst Keflvíkinga með 28 stig en Lisa Karcic kom næst með fimmtán stig auk þess sem hún tók níu fráköst og stal boltanum níu sinnum. Bryndís Guðmundsdóttir skoraði tólf stig og tók tíu fráköst.

Shayla Fields skoraði 29 stig fyrir Njarðvík, Julia Demirer átján og Liepkalne fimmtán.

Keflavík-Njarðvík 74-73 (34-38)Keflavík: Marina Caran 28, Lisa Karcic 15/9 fráköst/9 stolnir/3 varin skot, Bryndís Guðmundsdóttir 12/10 fráköst, Pálína Gunnlaugsdóttir 9, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 6/5 fráköst/5 stoðsendingar, Hrund Jóhannsdóttir 2, Ingibjörg Jakobsdóttir 2.

Njarðvík: Shayla Fields 29/7 fráköst/6 stoðsendingar, Julia Demirer 18/14 fráköst, Dita Liepkalne 15/14 fráköst, Ólöf Helga Pálsdóttir 6, Ína María Einarsdóttir 3, Anna María Ævarsdóttir 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×