Sport

Kidd og Nowitzki sáu um landa sigrinum gegn Portland

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Dirk Nowitzki skoraði 18 af alls 28 stigum sínum í fjórða leikhluta gegn Portland í gær.
Dirk Nowitzki skoraði 18 af alls 28 stigum sínum í fjórða leikhluta gegn Portland í gær. AP
Jason Kidd og Dirk Nowitzki eru án efa mjög einbeittir þegar úrslitakeppnin í NBA deildinni er að byrja en þeir hafa á löngum ferli sínum aldrei náð að landa meistaratitli. Liðsfélagarnir vita að tíminn er að hlaupa frá þeim og þeir fá ekki mörg tækifæri til viðbótar. Kidd og Nowitzki voru allt í öllu í 89-81 sigri liðsins í gær gegn Portland í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í Vesturdeildinni. Kidd skoraði alls 24 stig, flest í fyrri hálfleik, og Nowitzki skoraði 18 af alls 28 stigum sínum í fjórða leikhluta.

LaMarcus Aldridge skoraði 27 stig fyrir Portland sem var með yfirhöndina, 72-66, þegar sex mínútur voru eftir af leiknum. Dallas lauk leiknum með því að skora 23 stig gegn 9.

Rick Carlisle þjálfari Dallas sagði í leikslok að Kidd hefði ekki leikið betur á þessu tímabili. „Allt sem hann gerði í leiknum var nákvæmlega það sem við þurftum á að halda. Hann er leiðtogi og það er erfitt að finna leikmenn með slíka hæfileika," sagði Carlisle.

Kidd er 38 ára gamall og hefur leikið í 15 úrslitakeppnum og alls 122 leiki.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×