Handbolti

Atli: Finnst best að vinna mikið á leikdegi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Atli Hilmarsson.
Atli Hilmarsson.
Atli Hilmarsson, þjálfari Akureyrar, var pollrólegur og ekki í neinu stressi þegar Vísir heyrði í honum í dag. Deildarmeistarar Akureyrar taka á móti HK í kvöld í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum N1-deildar karla.

"Ég vil helst vinna sem mest á leikdegi. Þá þarf ég ekki að velta mér upp úr leiknum allan daginn. Ég er búinn að undirbúa liðið eins vel og ég get þannig að það hefur lítið upp á sig að hugsa um leikinn í allan dag. Ég vil því vinna mikið, fara svo heim og á völlinn," sagði Atli um undirbúninginn á leikdegi.

Akureyri hefur gengið vel gegn HK í vetur og unnið allar fjórar rimmur liðanna. Atli á þó ekki von á auðveldu verkefni.

"Við unnum fyrsta leikinn létt en hinir þrír leikirnir voru hörkuleikir. HK er með gott lið sem hefur unnið öll liðin í deildinni nema okkur. Það segir sitt um þeirra styrkleika. Þess vegna búumst við ekki neinu öðru en erfiðum leik," sagði Atli.

Allir leikmenn Akureyrar eru klárir í slaginn nema örvhenta skyttan, Geir Guðmundsson. Hann er á leið í aðgerð og spilar því ekki meira í vetur.

"Við höfum verið án hans eftir áramót. Auðvitað söknum við hans en hann kemur sterkur til baka á næstu leiktíð," sagði Atli sem óskar eftir stuðningi í kvöld.

"Heimavöllurinn hefur reynst okkur dýrmætur og ég vonast eftir fullu húsi og stemningu í kvöld eins og í allan vetur."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×