Handbolti

Ólafur: Ég veit ekki hvernig við ætlum að toppa forsetann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Guðmundsson var einn af þremur leikmönnum FH sem fengu verðlaun þegar umferðir 15 til 21 í N1 deild karla voru gerðar upp í dag. Ólafur hefur verið lykilmaður í FH-liðinu sem náði í 13 af 14 mögulegum stigum í þriðju umferðinni.

„Við erum á hörku siglingu og þetta er allt upp á við hjá okkur. Við verðum að halda áfram að fara upp á við það sem eftir er," sagði Ólafur.

„Það þarf að toppa á réttum tíma. Úrslitakeppnin er bara ný keppni, við erum að spila vel þessa dagana og þurfum bara að halda því áfram. Það þarf að hafa fyrir hverjum einasta leik," sagði Ólafur.

„Við héldum okkar striki þótt að við ættum einhverja slaka leiki. Við héldum áfram okkar leik og höfðum trú á því sem við vorum að gera. Svo fóru að koma inn menn sem höfðu dottið út vegna meiðsla. Þá fór þetta að smella og kom rytmi í þetta hjá okkur. Þetta tók sinn tíma en þetta er að smella hjá okkur núna," sagði Ólafur.

„Það er pínu vandræðalegt að segja frá því að þetta verður fyrsta úrslitakeppnin mín. Það er gaman af því enda er maður ekkert að deyja úr elli og því engin skömm af því. Þetta er bara spennandi og verður skemmtileg keppni. Það er mikil spenna og þetta er áhorfendavænt," sagði Ólafur.

„Ég veit ekki hvernig við ætlum að toppa forsetann en þetta verður eitthvað hressandi. Það er glæsilegt hvernig umgjörðin er upp í Krika og ég veit að þetta verður eitthvað flott hjá þeim alla úrslitakeppnina. Við höldum bara áfram að toppa okkur," sagði Ólafur.

„Það er allt liðið að spila vel og það hefði verið hægt að velja FH-inga í allar stöður. Það eru allir að skila sínu og það eru allir að spila fyrir liðið. Það er gaman að fá svona verðlaun og það er alltaf mikill heiður," sagði Ólafur en það má sjá allt viðtalið með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×