Körfubolti

NBA: Lakers í lykilstöðu og Orlando enn á lífi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Kobe treður hér yfir Okafor í nótt.
Kobe treður hér yfir Okafor í nótt.
Ökklinn á Kobe Bryant virtist vera í fínu lagi í nótt er Kobe leiddi Lakers til lykilsigurs gegn New Orleans. Lakers komst fyrir vikið yfir í einvíginu og vantar einn sigur í viðbót til þess að komast áfram í næstu umferð.

Kobe skoraði 19 stig og átti tvær tröllatroðslur í leiknum þrátt fyrir að vera tognaður á vinstri ökklanum. Liðsheildin var öflug hjá Lakers í nótt en sex leikmenn skoruðu tíu stig eða meira.

Það var aldrei í kortunum hjá Orlando að fara í sumarfrí í nótt. Leikmenn liðsins tóku öll völd á vellinum gegn Atlanta strax á fyrstu mínútu og unnu frekar auðveldan sigur. Svo auðveldur var sigurinn að Dwight Howard lék aðeins í 29 mínútur en hann lék yfir 40 mínútur í öllum hinum leikjunum.

Chicago vann einnig auðveldan sigur á Indiana og rúllaði fyrir vikið inn í næstu umferð. Derrick Rose skoraði 25 stig og gaf 6 stoðsendingar í leiknum. Luol Deng var með 24 stig.

Úrslit (staðan í einvíginu):

LA Lakers-New Orleans  106-90 (3-2)

Orlando-Atlanta  101-76  (2-3)

Chicago-Indiana  116-89 (4-1)

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×