Handbolti

Búið að selja 25 þúsund miða á úrslitaleikinn á Parken

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Atlason í leik með AG.
Arnór Atlason í leik með AG.
Það gengur vel að selja miða á annan leik AG og Bjerringbro-Silkeborg í úrslitaeinvíginu um danska meistaratitilinn í handbolta en hann fer fram á fótboltavellinum í Parken í Kaupmannahöfn.

Jepser Nielsen, eigandi AG, fékk þá ótrúlegu hugmynd að fara með leikinn í Parken í stað þess að spila hann í Brøndby-höllinni. Parken mun taka 34 þúsund manns og verður þetta því mest sótti handboltaleikur sögunnar takist AG-mönnum að fylla hann.

Í gær var búið að selja 25 þúsund miða á leikinn sem fer fram laugardaginn 21. maí klukkan 16.00 að dönskum tíma. AG-menn eru bjartsýnir að það verði uppsellt á leikinn en völlurinn verður settur inn á miðjan fótboltavöllinn þannig að allir áhorfendur munu sjá vel.

Leikurinn í Parken verður annar leikr liðanna í úrslitaeinvíginu en þau mætast fyrst á heimavelli Bjerringbro-Silkeborg um næstu helgi. Það er venjan í Danmörku að liðið með heimavallarréttinn byrji á útivelli.

Það lið sem fyrr vinnur tvo leiki verður danskur meistari og því gæti farið svo að liðin spili oddaleik sunnudaginn 29. maí en þriðji leikurinn mun fara fram í Brøndby-höllinni. Það búast samt flestir við því að AG vinni fyrsta leikinn og geti því tryggt sér meistaratitilinn í Parken.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×