Körfubolti

Magic hefur ekki mikla trú á því að Lakers komi til baka

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kobe Bryant.
Kobe Bryant. Mynd/AP
Kobe Bryant og félagar í Los Angeles Lakers eru í slæmum málum í úrslitakeppni NBA-deildarinnar eftir tvö töp á heimavelli í fyrstu tveimur leikjunum í undanúrslitaeinvígi sínu á móti Dallas Mavericks. Þriðji leikurinn er í Dallas í kvöld og í beinni á Stöð 2 Sport klukkan 1.30.

„Það er alltof langt gengið að segja að við séum örvæntingafullir. Þegar þú spilar á barmi örvæntingar þá ertu ekki að spila þinn besta körfubolta. Við þurfum að slaka á, einbeita okkur af því sem við erum að gera rangt og hvaða mistök við erum að gera. Við höfum nóg til að fara yfir og laga," sagði Kobe Bryant.

Bryant þarf helst að reyna að rífa upp miðherjana Pau Gasol og Andrew Bynum sem eru búnir að vera í tómu tjóni á báðum endum vallarins. Bynum bætti síðan um betur með klaufalegum yfirlýsingum eftir leik tvö þar sem að hann lét það flakka að leikmenn Lakers treystu ekki lengur hverjum öðrum.

Magic Johnson er ekki bjartsýnn fyrir hönd síns liðs. „Það verður erfitt að klifra upp úr þessarri holu og ég tel að möguleikarnir séu ekki miklir," skrifaði Magic á twittersíðu sína og seinna bætti hann við að Bynum ætti að halda kjafti.

Mynd/AP
„Okkur líkar ekki að vera í þessarri stöðu og við erum heldur ekki vanir því. Við breytum því samt ekki úr þessu og þurfum að halda saman hópinn og ráða fram úr þessu. Við erum að reyna að skrifa söguna og það er ekki auðvelt. Það þurfa allir í liðinu að líta í eigin barm," sagði Derek Fisher.

Dirk Nowitzki hefur farið illa með Lakers-vörnina í fyrstu tveimur leikjunum en þekkir það af eigin reynslu að veður getur fljótt skipast í lofti í úrslitakeppninni.

„Þetta einvígi er langt frá því að vera búið. Ég hef verið 2-0 yfir áður og endað á því að detta út. Við höfum séð margt gerast í NBA-deildinni og þurfum því að halda einbeitingu, halda hópinn, sækja aukakraft til okkar fólks og ná í annan góðan sigur," sagði Nowitzki.

Næstu tveir leikir eru í Dallas en það lið sem fyrr vinnur fjóra leiki kemst áfram í úrslitaeinvígið í Vesturdeildinni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×