Handbolti

Búið að selja 30 þúsund miða á Parken

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Arnór í leik með AGK. Mynd/Ole Nielsen
Arnór í leik með AGK. Mynd/Ole Nielsen
Það stefnir allt í að það verði sett heimsmet í áhorfendasókn í handbolta á Parken í Kaupmannahöfn þann 21. maí næstkomandi. Þá tekur AGK á móti Bjerringbro/Silkeborg í öðrum leik liðanna um danska meistaratitilinn.

Hinn vellauðugi eigandi AGK, Jesper Nielsen, er vanur að hugsa stórt og margir hlógu þegar hann ákvað að leigja Parken undir þennan leik fyrir mörgum mánuðum.

Þeir hinir sömu hlæja ekki í dag því búið er að selja 30 þúsund miða á leikinn og þarf aðeins að selja þúsund í viðbót til þess að toppa núverandi heimsmet.

Það er 31 þúsund og var sett á leik Lemgo og Kiel í þýska handboltanum árið 2004. Þá var leikið á knattspyrnuvelli Schalke.

Það var einmitt fyrsti leikur Loga Geirssonar með Lemgo og nú munu félagar hans, Arnór Atlason og Snorri Steinn Guðjónsson, líklega taka af honum heimsmetsleikinn en þeir eru báðir leikmenn AGK.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×