Handbolti

Þórir bara í þriðja sæti í kjöri IHF á besta þjálfara ársins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórir Hergeirsson.
Þórir Hergeirsson. Mynd/AFP
Þórir Hergeirsson, þjálfari Evrópumeistara Noregs í kvennaflokki, var í þriðja sæti á kjöri IHF á besta þjálfara ársins 2010 en kosning fór fram á heimasíðu Alþjóða handboltasambandsins. Það voru frönsku landsliðsþjálfararnir, Claude Onesta og Olivier Krumbholz, sem fengu flest atkvæði í kjörinu í ár.

Claude Onesta var kosinn besti landsliðsþjálfari hjá körlunum og er þetta annað árið í röð sem hann hlýtur þessi verðlaun. Onesta gerði Frakka að Heimsmeisturum á árinu en hann fékk yfirburðakosningu eða 81 prósent atkvæða  í boði. Ulrik Wilbek, landsliðsþjálfari Dana, fékk 16 prósent atkvæða og Valero Lopez, þjálfari Spánar, fékk 3 prósent af greiddum atkvæðum.

Olivier Krumbholz  var kosinn besti landsliðsþjálfari hjá konunum en hann hefur komið franska kvennalandsliðinu aftur í fremstu röð. Liðið varð í 2. sæti á HM í Kína 2009 og í 5. sæti á EM í Danmörku 2010. Krumbholz fékk 45 prósent atkvæðanna, Jan Pytlick, landsliðsþjálfari Dana fékk 32 prósent atkvæða í kjörinu og Þórir kom síðan í þriðja sæti með 23 prósent atkvæða.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×