Handbolti

Kristinn farinn í mál við félag sitt í Noregi

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Kristinn Björgúlfsson.
Kristinn Björgúlfsson.
Handknattleiksmaðurinn Kristinn Björgúlfsson er ekkert í allt of góðum málum í Noregi. Félag hans, Oppsal, hefur sagt upp samningi sínum við Kristin en það sættir hann sig ekki við og ætlar í hart við félagið.

"Við erum þrír sem erum mjög ósáttir við framkomu félagsins og ætlum að kæra þá fyrir ólöglega uppsögn á samningi. Við viljum skaðabætur og að þeir greiði fyrir þann tíma sem við eigum eftir á samningi," sagði Kristinn við Vísi en hann átti ár eftir af samningi sínum við félagið.

"Það er búið að vera basl á félaginu og það skuldaði 600 þúsund norskar krónur í upphafi tímabilsins. Það náðist að rétta skútuna við en í apríl sagðist félagið svo vera komið með heildarskuld upp á 1,4 milljónir. Þeir sögðu því upp samningum við alla á þeim forsendum að annars færi félagið í þrot," sagði Kristinn en hann og aðrir hjá félaginu segja félagið ekki koma heiðarlega fram.

"Þeir ljúga bara að okkur. Samkvæmt ársreikningi á félagið milljón inn á bók þannig að það er ekki eins illa statt og það segir. Svo hefur það verið að semja við dýra kvennaleikmenn þannig að málið gengur ekki upp."

Félagið bauð Kristni nýjan og verri samning sem hann segir nánast hafa verið móðgun.

"Sá samningur hljóðaði upp á launaskerðingu upp á 84 prósent ásamt því sem íbúðar- og bílafríðindi voru ekki lengur í pakkanum. Það er ekki neitt," sagði Kristinn sem stendur eftir án félags.

Hann hefur farið víð á sínum ferli og meðal annars leikið í Þýskalandi og Grikklandi. Hvað nú?

"Það er ómögulegt að segja hvar ég enda næst. Ég er opinn fyrir öllu."












Fleiri fréttir

Sjá meira


×