FIA samþykkti í dag óskir yfirvalda í Barein að Formúlu 1 mót fari fram í landinu á þessu keppnistímabili. Mótshaldarar fengu frest í tvígang til að sækja um mótshald og gerðu það á dögunum. FIA samþykkit í dag að mót færi fram 30. október samkvæmt frétt á autosport.com.
Þetta þýðir að mót sem átti að fara fram í Indlandi á sama tíma verður fært til fjórða eða ellefta desember. Mótið í Barein átti að fara fram 13. mars. en var frestað vegna mótmæla í landinu og átaka milli yfirvalda og mótmælenda sem leiddu til þess að yfir 20 létust.
Ákvörðun FIA á fundi í Barcelona í dag þýðir að 20 mót verða á dagskrá í Formúlu 1 í ár, eins og til stóð. FIA menn ræddu við yfirvöld í Barein, auk þess að ræða við forsvarsmenn alþjóðlegra mannréttindasamtaka og samskonar samtaka í Barein áður en ákvörðun var tekin í málinu.
„Þetta eru góðar fréttir fyrir allaí Barein. Við höfum gengið gengum erfiða tíma sem þjóð, en það er komið á jafnvægi og viðskiptalífið er að taka á sig eðlilega mynd", sagði Zayed R. Alzayani, sem er einn af yfirmönnum Barein mótssvæðisins.
„Mótið í Barein hefur alltaf verið þáttur af þjóðarstoltinu og ofar pólíík. Það nýtur stuðnings stjórnvalda í Barein og allra stærstu stjórnmálaflokkanna og stjórnarandstæðinga. Þá skilar mótið tekjum upp á 500 miljónir dala og 3000 störfum."
„Mig langar fyrir hönd Barein að þakka Bernie Ecclestone, Jean Todt og FIA og öðrum í akstursíþróttageiranum fyrir skilning og stuðning sem hefur verið veittur í ár", sagði Alzayani.
Ákvörðun FIA lengir Formúlu 1 tímabilið og óljóst er hvernig forsvarsmenn keppnisliða munu bregðast við, en yfirmaður Mercedes, Ross Brawn sagði í vikunni að það væri óásættanlegt að halda mót þann 11. desember.

