Handbolti

Guðmundur: Austurríkismenn hafa reynst okkur erfiðir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Strákarnir fögnuðu sigri á Austurríkismönnum á HM í Svíþjóð í janúar.
Strákarnir fögnuðu sigri á Austurríkismönnum á HM í Svíþjóð í janúar. Mynd/Valli
„Við getum ekki leyft okkur að spila með sama hætti gegn Austurríkismönnum og við gerðum á miðvikudaginn gegn Lettum," sagði Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari á blaðamannafundi í Safamýrinni í dag. Fundurinn fór fram strax eftir æfingu íslenska landsliðsins.

„Austurríkismenn hafa reynst okkur erfiðir í síðustu þremur leikjum og á Heimsmeistaramótinu í Svíþjóð tók það okkur tæplega fimmtíu mínútur að brjóta þá á bak aftur," sagði Guðmundur.

„Varnarlega eru þeir mjög sterkir og markvarsla liðsins er hæsta gæðaflokki sem síðan leiðir af sér góð hraðaupphlaup. Þeir eru með frábæran leikstjórnanda í Viktor Szilagyi og skyttur liðsins eru öflugar. Þá eru hornamenn liðsins í fremstu röð í heiminum," sagði Guðmundur.

„Það er einnig mikilvægt að íslenska liðið fái stuðning áhorfenda í Höllinni því þetta er einfaldlega úrslitaleikur. Þeim nægir eitt stig en við verðum að vinna leikinn," sagði Guðmundur.

Björgvin Páll Gústavsson, markvörður íslenska liðsins, sagði það rétt að í svona leikjum réðust úrslit ofar en ekki á vörn og markvörslu. „Ég er í fínu standi og ég vona að við fáum þann stuðning sem við þurfum á að halda. Það er ekkert skemmtilegra en að vinna svona leiki fyrir fram troðfulla höll," sagði Björgvin Páll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×