Handbolti

Aron var sprækur á æfingu í dag - meiri óvissa með Snorra Stein

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson í leik á móti Austurríki á HM í Svíþjóð.
Aron Pálmarsson í leik á móti Austurríki á HM í Svíþjóð. Mynd/Valli
Íslenska handboltalandsliðið mætir Austurríkismönnum í Laugardalshöllinni í hreinum úrslitaleik um sæti á Evrópumótinu í Serbíu sem fram fer í janúar næstkomandi. Íslenska liðið leik án tveggja aðalleikstjórnenda sinna í sigrinum á Lettlandi í vikunni en landsliðsþjálfarinn vonast eftir því að þeir verði með á sunnudaginn.

Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari, sagði að þeir Aron Pálmarsson og Snorri Steinn Guðjónsson væru að koma til en það væri þó heldur meiri óvissa með Snorra Stein. Guðmundur sagðist þó vonast til þess að Snorri Steinn gæti tekið þátt í leiknum en hann tjáði blaðamönnum jafnfram að Aron hafi virkað sprækur á æfingu í dag.

Aron Pálmarsson tók þátt í æfingunni í morgun og kenndi sér ekki neins meins. Hann sagðist vera tilbúinn og klár í slaginn á sunnudag. „Auðvitað er það rétt að þetta er úrslitaleikur og pressan er mikil. Það eru nú þessi leikir sem við lifum fyrir," sagði Aron.

Snorri Steinn fór í sneiðmyndatöku í morgun og í framhaldinu tók við meðhöndlun hjá sjúkrateymi íslenska liðsins. Eftir daginn í dag binda menn vonir til þess að hann gæti tekið þátt í æfingu á morgun.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×