Handbolti

Piltalandsliðið tapaði gegn Belgíu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Geir Guðmundsson skoraði þrjú mörk fyrir Ísland í leiknum í dag
Geir Guðmundsson skoraði þrjú mörk fyrir Ísland í leiknum í dag Mynd/Valli
Íslenska landsliðið í handknattleik karla skipað leikmönnum 19 ára og yngri tapaði gegn Belgíu 20-14 í lokaleik riðlakeppninnar á Opna Evrópumótinu í Gautaborg í dag. Tapið þýðir að íslensku piltarnir komast ekki upp úr riðlinum og spila um 9-15. sætið á mótinu.

Íslenska liðið var undir í hálfleik 9-5 og náðu ekki að snúa leiknum sér í hag í síðari hálfleik. Á heimasíðu handknattleikssambands Íslands kemur fram að framliggjandi vörn Belganna hafi ollið íslensku strákunum vandræðum.

Eftir sigra gegn Rússum og Finnum í fyrstu tveimur leikjum riðlakeppninnar benti flest til þess að strákarnir myndu komast í átta liða úrslit. Tapið gegn Hollendingum í gær og gegn Belgum í dag gera það að verkum að sá draumur er úr sögunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×