Golf

Tom Watson fór holu í höggi

Gamli refurinn Tom Watson fór holu í höggi á Opna breska meistaramótinu í golfi á Royal St. George's vellinum í morgun. Draumahöggið átti Watson á sjöttu holu vallarins sem er 163 metra löng par þrjú hola.

Atvikið má sjá hér.

Watson sem er 61 árs er á þremur höggum undir pari eftir átta holur. Einu höggi undir samanlagt. Watson er í holli með nafna sínum áhugamanninum Tom Lewis. Lewis var í forystu að loknum fyrsta degi á fimm höggum undir pari líkt og Daninn Thomas Björn.

Svo skemmtilega vill til að Tom Lewis er skírður í höfuðið á Watson. Lewis hefur aðeins fatast flugið í dag og er á tveimur höggum yfir pari. Þremur undir samanlagt.

Norður-Írinn Darren Clarke er farinn að sækja að efstu mönnum. Hann er á fjórum höggum undir pari eftir 15 holur. Thomas Björn er efstur á fimm undir en Björn hefur leik í hádeginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×