Lewis Hamilton var kampakátur eftir að hafa unnið Formúlu 1 mótið á Nürburgring í dag með McLaren.
„Allir sigrar eru sérstakir, en eftir allt umstangið og undirbúnining liðsins fyrir mótið í dag, þá er þessi sigur enn sérstakari en ella", sagði Hamilton eftir mótið í dag. Hann háði harða keppni við Mark Webber á Red Bull og Fernando Alonso á Ferrari um sigurinn.
„Ég var búinn að segja að ég ætlaði að taka eitt mót í einu og það var því verulega jákvætt að vinna. En það er mikið eftir af tímabilinu og nú reynir á þolgæðin og hraðann héðan í frá."
„Ég var á ystu nöf hring eftir hring og reyndi að aka fullkomlega, en um leið af krafti. Mér fannst margt af því sem ég gerði í dag með því nákvæmara sem ég hef sýnt í akstri. Það var gott að geta ekið með heilanum og hjartanu á hárréttan hátt og það er mjög gefandi."
„Slagurinn um meistaratitilinn verður harður, en við erum mættir í slaginn. Ég vona að við getum haldið slagkraftinum áfram", sagði Hamilton, sem hefur færst upp í þriðja sæti í stigakeppni ökumanna á eftir Sebastian Vettel og Mark Webber á Red Bull.

