Enski boltinn

Dalglish hreinsar til - Kyrgiakos til Wolfsburg

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kyrgiakos í baráttu við Andy Carroll á æfingu hjá Liverpool.
Kyrgiakos í baráttu við Andy Carroll á æfingu hjá Liverpool. Nordic Photos/Getty
Grikkinn Sotirios Kyrgiakos er á leið til þýska liðsins Wolsburg. Þýska blaðið Kicker greinir frá þessu á heimasíðu sinni í dag. Blaðið segir varnarmanninn hárprúða hafa skrifað undir tveggja ára samning.

Kyrgiakos var mættur á æfingu hjá Wolfsburg í dag ásamt Króatanum Hrvoje Cale. Kicker segir báða hafa samþykkt samninga, Cale til ársins 2014 og Kyrgiakos til ársins 2013. Kyrgiakos hefur alið manninn hjá Liverpool frá 2009 en virðist ekki í framíðarplönum Kenny Dalglish.

Kyrgiakos kom til Liverpool frá gríska Íslendingaliðinu AEK Aþenu. Hann var áður á mála hjá Frankfurt í Bundesligunni og spilaði tvö tímabil með liðinu.

Talið er að dagar Danans Simon Kjær í vörninni hjá Wolfsburg séu taldir með nýju kaupum Felix Magath. Félagið hefur aðeins unnið einn af fyrstu þremur leikjum tímabilsins. Liðið steinlá gegn Mönchenbladbach 4-1 um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×