Handbolti

Sex marka tap fyrir hollensku stelpunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Daníel
Íslenska kvennalandsliðið í handbolta tapaði með sex mörkum á móti Hollandi í dag, 23-29, í fyrsta leik sínum á æfingamótinu í Póllandi. Holland var með forystuna allan leikinn og var 15-11 yfir í hálfleik.

Arna Sif Pálsdóttir var markahæst í íslenska liðinu með fimm mörk en hún spilaði mikið í forföllum Önnu Úrsúlu Guðmundsdóttur. Hrafnhildur Skúladóttir og Hanna Guðrún Stefánsdóttir skoruðu báðar fjögur mörk. Guðný Jenný Ásmundsdóttir varði 17 skot og var valinn maður leiksins hjá íslenska liðinu eftir leik.

Holland komst í 6-3 eftir tíu mínútur en íslenska liðið náði að minnka muninn í 10-9, þegar 20 mínútur voru liðnar af leiknum. Hollenska liðið vann hinsvegar síðustu tíu mínútur fyrri hálfleiks 5-2 og var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 15-11.

Hollenska liðið skoraði síðan fjögur fyrstu mörk seinni hálfleiksins og komst í 18-11. Hollensku stelpurnar voru síðan 21-14 yfir þegar ágætur sprettur íslenska liðsins kom muninum niður í þrjú mörk en nær komst íslenska liðið ekki.

Stella Sigurðardóttir fékk útlokun í upphafi seinni hálfleiks þegar hún fékk sína þriðji brottvísun í leiknum.

Birna Berg Haraldsdóttir var í byrjunarliðinu í sínum fyrsta landsleik en bæði Anna Úrsúla Guðmundsdóttir og Þorgerður Anna Atladóttir hvíldu í leiknum í dag, Anna er veik og Þorgerður glímir við meiðsli á hendi.

Þetta var fyrsti leikur íslenska liðsins af þremur á æfingamótinu í Chorzow í Póllandi en stelpurnar mæta Póllandi á morgun og spila síðan við Tékkland á sunnudaginn.



Ísland-Holland 23-29 (11-15)

Markaskorarar Íslands:
Arna Sif Pálsdóttir 5
Hrafnhildur Skúladóttir 4
Hanna G. Stefánsdóttir 4/3
Stella Sigurðardóttir 3
Ragnhildur R. Guðmundsdóttir 2
Dagný Skúladóttir 1
Sólveig L. Kjærnested 1
Brynja Magnúsdóttir 1
Ásta Birna Gunnarsdóttir 1
Karen Knútsdóttir 1
Varin skot:
Guðný Jenný Ásmundsdóttir 17
Guðrún Ósk Maríasdóttir 3



Fleiri fréttir

Sjá meira


×