Golf

Birgir Leifur reynir sig á úrtökumóti fyrir PGA í fyrsta sinn

Birgir Leifur Hafþórsson hefur leik á morgun, þriðjudag, á úrtökumóti fyrir sterkustu atvinnumótaröð heims, PGA mótaröðina í Bandaríkjunum. Birgir Leifur hefur dvalið í Bandaríkjunum undanfarna daga en þetta er í fyrsta sinn sem atvinnumaðurinn tekur þátt á úrtökumóti fyrir PGA. Birgir telur sig eiga möguleika á að komast inn á mótaröðina en úrtökumótið er þrískipt líkt og á evrópsku mótaröðinni.

Birgir Leifur segir í viðtali við Hans Steinar Bjarnason íþróttafréttamann á Stöð 2 að hann eigi raunhæfa möguleika á að komast alla leið.

Birgir leikur á Pinewild Magnolioa vellinum í Norður-Karólínu þar sem að 78 kylfingar keppa um 15 efstu sætin sem tryggja þeim áframhaldandi þátttökurétt inn á 2. stigið. Leiknir verða fjórir hringir, 72 holur, á þessu úrtökumóti .

Gríðarleg samkeppni er um þau örfáu sæti sem eru í boði á sjálfri PGA mótaröðinni. Á undanförnum vikum fóru fram úrtökumót fyrir þá sem vildu komast inn á 1. Stigið. Birgir Leifur slapp við þá síu en til þess að komast alla leið á PGA mótaröðina þarf hann líkt og aðrir að komast í gegnum öll  þrjú stigin á úrtökumótinu. Lauslega áætlað má gera ráð fyrir að rúmlega 1000 kylfingar keppi á 13 mismundandi keppnisvöllum víðsvega um Bandaríkin á 1. stiginu. Aðeins 20% af þeim komast inn á 2. stigið.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×