Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: Fram - HK 23-30

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
HK varð fyrst allra liða í vetur til þess að leggja Fram í N1-deild karla í vetur. Eftir fjóra sigurleiki í röð varð Fram að játa sig sigrað, 23-30.

Það verður að segjast eins og er að fyrri hálfleikur var skelfilega leikinn af beggja hálfu. Bæði lið gerðu hver mistökin á fætur öðru.

Ungstirnin Róbert Aron Hostert hjá Fram og Bjarki Már Elísson hjá HK stálu senunni með mögnuðum leik og skoruðu sex mörk hvor í hálfleiknum. Aðrir leikmenn liðanna voru vart með.

Þeir félagar skoruðu sem sagt helming marka sinna liða í hálfleiknum því það var jafnt í leikhléi, 12-12.

Jafnt var á með liðunum framan af síðari hálfleik en í stöðunni 15-13 fór leikur Framara í vaskinn. Gleðigjafinn Sigurður Eggertsson klúðraði hverju skotinu á fætur öðru og HK refsaði með hraðaupphlaupum og komst yfir, 15-18.

Varnarleikur Framara var hruninn á þessum tíma og sóknarleikurinn ákaflega ráðleysislegur. Athygli vakti að Einar Jónsson, þjálfari Fram, skildi ekki taka leikhlé. Það var engu líkara en hann væri frosinn á meðan gestirnir úr Kópavogi keyrðu yfir hans menn.

Það var ekki fyrr en í stöðunni 20-24 sem Einar vaknaði, tók leikhlé og reyndi að endurskipuleggja leik sinna manna.

HK-ingar þurftu ekki einu sinni neina markvörslu til að ná þessu forskoti því Framarar hreinlega gáfu þeim boltann hvað eftir annað.

Það er skemmst að segja frá því að leikhléið hjá Einari skilaði engu. Leikmenn Fram voru búnir að missa hausinn og vissu vart í hvorn fótinn þeir áttu að stíga.

HK hélt áfram á sömu keyrslu og innbyrti sanngjarnan sigur. Áhugaverður sigur í ljósi þess að nánast engin markvarsla var hjá liðinu þar til í lokin og svo var þeirra besti maður, Ólafur Bjarki Ragnarssom, fjarri sínu besta og gat í raun ekkert í 50 mínútur.

Það segir sína sögu um liðsheildina hjá HK sem er sterkari en margur heldur. Bjarki Már átti stórbrotinn leik en þar fer einn efnilegast leikmaður landsins.

Ingimundur: Spiluðum eins og einstaklingar„Við vorum hvorki góðir í fyrri né seinni hálfleik. Það er áhyggjuefni hversu illa við spilum í þessum leik," sagði varnartröllið Ingimundur Ingimundarson, leikmaður Fram.

„Ég veit ekki hvað var að. Þetta er engan veginn nógu gott. Við vorum hugmyndasnauðir og staðir. Spiluðum eins og einstaklingar. Það virkar ekki í 60 mínútur.

„Það vantaði meiri hita og baráttu í okkur. Við verðum að læra af þessu og spá í næsta leik sem er hörkuleikur. Þetta voru bara fjórir leikir og engin svakasigling. Það bjuggust ekki margir við því að við færum taplausir í gegnum þetta. Við verðum að koma sterkir til baka."

Hægt er að sjá myndbandsviðtal við Ingimund hér að ofan.

Bjarki: Þetta var ótrúlega ljúft

HK-ingurinn Bjarki Már Elísson lék á alls oddi í Safamýrinni í kvöld. Skoraði ellefu góð mörk og spilaði þess utan flottan varnarleik.

„Þetta var ótrúlega ljúft. Varnarleikurinn lagði grunninn að þessum sigri enda skoruðu þeir aðeins 23 mörk. Það er lítið í nútímahandbolta," sagði Bjarki.

„Við byrjuðum mótið illa. Við ákváðum að fara ekkert á taugum heldur halda áfram á þeirri braut sem við vildum. Við erum að nálgast okkar besta," sagði Bjarki en hvað með eigin frammistöðu?

„Ég var frekar þreyttur fyrir þennan leik en ég er í fínu formi og vonand heldur þetta svona áfram hjá mér."

Hægt er að sjá myndbandsviðtal við Bjarka hér.

Fram-HK 23-30 (12-12)

Mörk Fram (skot): Róbert Aron Hostert 7 (13), Einar Rafn Eiðsson 4 (9/1), Sigurður Eggertsson 3 (10), Matthías Bernhöj Daðason 3 (4), Ægir Hrafn Jónsson 2 (2), Halldór Jóhann Sigfússon 2/1 (3/1), Sigfús Páll Sigfússon 1 (3), Jóhann Karl Reynisson 1 (1).

Varin skot: Magnús Gunnar Erlendsson 12/1 (35/3) 34%, Sebastían Alexandersson 3 (10) 30%.

Hraðaupphlaup: 4 (Róbert, Matthías, Ægir, Einar).

Fiskuð víti: 2 (Ingimundur, Ægir).

Utan vallar: 2 mín

Mörk HK (skot): Bjarki Már Elísson 11/1 (15/1), Atli Ævar Ingólfsson 4 (10), Ólafur Víðir Ólafsson 3 (4), Hörður Másson 3 (4), Tandri Konráðsson 3 (9), Ólafur Bjarki Ragnarsson 3/1 (8/2), Leó Snær Pétursson 2 (3), Atli Karl Bachmann 1 (1).

Varin skot: Björn Ingi Friðþjófsson 9 (23/2) 39%, Arnór Freyr Stefánsson 3 (12) 25%.

Hraðaupphlaup: 10 (Bjarki 5, Leó 2, Atli, Ólafur V., Ólafur B.).

Fiskuð víti: 3 (Bjarki 3).

Utan vallar: 6 mín.

Dómarar: Anton Gylfi Pálsson og Hlynur Leifsson, fínir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×