Golf

Birgir bætti stöðu sína | lék á 67 höggum á öðrum keppnisdegi

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Birgir Leifur Hafþórsson.
Birgir Leifur Hafþórsson.
Birgir Leifur Hafþórsson bætti stöðu sína verulega á öðrum keppnisdegi á úrtökumótinu fyrir PGA mótaröðina í golfi. Birgir lék á 4 höggum undir pari í dag eða 67 höggum og samtals er hann á -5 eftir að hafa leikið á 70 höggum á fyrsta keppnisdeginum.

Birgir er að leika á 2. stigi úrtökumótsins þar sem um 450 kylfingar keppa um 90 sæti á lokaúrtökumótinu. Hann var í 44.- 60. sæti eftir fyrsta keppnisdaginn en 20 efstu kylfingarnir af þessum velli komast áfram. Það skýrist síðar í kvöld hvar Birgir er í röðinni en besta skor gærdagsins var 64 högg eða -7 og besta skorið fram til þessa er -12 eftir tvo keppnisdaga.

Keppnisvöllurinn hjá Birgi er í Flórída, Plantation Preserve, en keppt er á 6 mismundandi völlum víðsvegar um Bandaríkin.

Á golffréttavefnum Kylfingur.is segir frá því að Birgir hafi leikið fyrri 9 holurnar á -3 en síðari 9 holurnar á -1. Alls fékk hann 6 fugla (-1) og einn skramba eða +2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×