Körfubolti

Keflvíkingar ekki í miklum vandræðum með Fjölnisliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thomas Sanders.
Thomas Sanders.
Keflavík vann öruggan 31 stigs sigur á Fjölni, 116-85, í Iceland Express deild karla í körfubolta í kvöld og hélt því sigurgöngu sinni áfram á Sunnubrautinni þar sem liðið hefur unnið sjö deildarleiki í röð.

Keflavík hafði tapað illa fyrir KR í DHL-höllinni fyrir viku en var með góð tök á leiknum við Grafarvogspilta í kvöld enda voru margir að skora fyrir liðið í kvöld.

Það voru alls níu leikmenn sem skoruðu átta stig eða meira en atkvæðamestir voru Thomas Sanders með 19 stig, Gunnar Einarsson skoraði 16 stig og þeir Magnús Þór Gunnarsson og Sigurður Gunnar Þorsteinsson voru báðir með 14 stig. Brandon Springer skoraði 26 stig og Tómas Holton Tómasson var með 16 stig.

Keflavíkurliðið var 29-23 yfir eftir fyrsta leikhluta en hóf síðan annan leikhlutann á því að smella niður þremur þristum í röð (Magnús Þór Gunnarsson 2, Hörður Axel Vilhjálmsson 1) og komst í 38-23.

Keflavík var síðan 59-42 yfir í hálfleik þar sem fjórir leikmenn liðsins voru búnir að skora átta stig eða meira í leiknum en Brandon Springer var langatkvæðahæstur Fjölnismanna með 19 stig.

Keflavík var síðan með 19 stiga forskot, 86-67, fyrir lokaleikhlutann þar sem liðið bætti við forskot sitt og vann að lokum með 31 stigs mun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×