Körfubolti

Teitur Örlygs: Minni spámenn létu til sín taka

Elvar Geir Magnússon í Garðabæ skrifar
Mynd/vilhelm
Mynd/vilhelm

„Þetta var alveg frábært. Það er mjög gott eftir tvo góða leiki hjá okkur gegn KFÍ og Tindastóli að ná að halda þetta út áfram," sagði Teitur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar, eftir að liðið vann Grindavík 79-70 í Iceland Express-deildinni í kvöld.

„Það var toppeinbeiting í vörninni og það skilar þessu. Sóknarleikurinn var ekkert sérstakur en minni spámenn í sókninni voru að láta til sín taka. Danni (Daníel Guðmundsson) sem venjulega tekur kannski eitt til tvö skot í leik var aðalsóknarmaðurinn í dag og nýtti skotin sín vel. Það er bara frábært," sagði Teitur en Daníel var stigahæstur í Stjörnuliðiðinu í kvöld með 22 stig.

„Aftur var það varnarleikurinn sem skildi á milli. Sóknarleikurinn okkar var alls ekki ásættanlegur á löngum köflum. Grindavík spilaði góða sókn gegn okkur í seinni hálfleiknum."

„Síðasti leikur fyrir norðan náði held ég að bjarga okkur frá falli en þessi leikur tryggir okkur líklega í úrslitakeppnina. Það eru svo margir innbyrðisleikir framundan fyrir neðan okkur. Nú er bara að reyna að halda þessu fimmta sæti og helst ekki fara neðar en það. Allt annað er bónus."

„Mér finnst við vera á réttri leið með bættum varnarleik og ég tala nú ekki um ef stigaskorið er farið að dreifast meira. Þetta hangir ekki á Justin og Jovan og þá er erfiðara að mæta okkur."

Stjarnan-Grindavík 79-70 (27-14, 13-14, 17-21, 22-21)

Stjarnan: Daníel G. Guðmundsson 22, Justin Shouse 13/5 fráköst, Jovan Zdravevski 12/4 fráköst, Guðjón Lárusson 11/10 fráköst, Renato Lindmets 11/14 fráköst/3 varin skot, Marvin Valdimarsson 7/5 fráköst/5 stolnir, Ólafur Aron Ingvason 2, Fannar Freyr Helgason 1.

Grindavík: Þorleifur Ólafsson 13, Ryan Pettinella 12/11 fráköst, Kevin Sims 12, Páll Axel Vilbergsson 11/5 fráköst, Ólafur Ólafsson 9/5 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 5, Mladen Soskic 5/5 stoðsendingar, Björn Steinar Brynjólfsson 3.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×