Skoðun

Stóryrtur formaður KÍ

Halldór Halldórsson skrifar
Í aðsendri grein Eiríks Jónssonar, formanns Kennarasambands Íslands, sem birt var í Fréttablaðinu mánudaginn 24. janúar sl. vandar hann ekki fremur en áður kveðjurnar til sveitarfélaganna. Hann kýs að tala niður til kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum og spyr hvort sveitarstjórnarmenn séu að ganga af göflunum. Hann talar um svartsýna og sjálfumglaða sveitarstjórnarmenn þar sem margt hafi farið úrskeiðis í fjármálastjórn, menn hafi verið að gera málamyndagjörninga í starfsmannamálum og afneitun þeirra á eigin mistökum eigi sér stað. Hann segir sveitarstjórnarmenn stunda tilviljunarkennd vinnubrögð, sýna nemendum áhugaleysi, starfsfólki skóla lítilsvirðingu og að þeir semji af sér í samningum við ríkið. Fleira telur hann upp til miska fyrir þá fulltrúa sem hafa verið kosnir í lýðræðislegum kosningum af íbúum sveitarfélaga til að fara með stjórn þessara samfélagseininga.

Því verður ekki leynt að mann setur hljóðan eftir slíkan reiðilestur. Hvað gengur manninum til? Nú standa yfir kjaraviðræður aðila og verður að telja að slík innkoma formanns KÍ í fjölmiðlum geti vart verið með það að markmiði að auðvelda lausn þeirra mála. Ekki vil ég trúa því að tilgangur hans sé að breyta vinsamlegum og hlutlægum kjaraviðræðum í harðvítuga kjaradeilu? Reyndar tekur hann ekki beinan þátt í þessum viðræðum enda er hann að láta af störfum á næstu vikum sem formaður KÍ og maður spyr sig hvort þetta geti virkilega verið hans lokakveðjur til sveitarstjórnarmanna þessa lands og hans lokainnlegg til samninganefnda KÍ á þessum erfiðu tímum?

Í raun dæma orð fráfarandi formanns KÍ sig sjálf og eru vart svaraverð.

Engu að síður setur hann fram svo stóra og illa ígrundaða fullyrðingu í greininni að ekki verður hjá því komist að leiðrétta hana. Hann segir að stærstu mistökin sem sveitarstjórnarmenn hafi gert í samningum við ríkið þegar sveitarfélögin sömdu um yfirtöku á öllum rekstri grunnskólans árið 1996 séu þegar þau hafi einungis fengið 60% af því fjármagni sem þurfti til að standa undir rekstri skóla. Þessu til stuðnings vísar hann til útreikninga Kennarasambands Íslands frá þeim tíma. Hvernig er hægt að halda slíku fram og ætlast til að einhver taki mark á sér? Hvar eru þessir útreikningar KÍ?

Í samningunum um yfirtöku á öllum rekstri grunnskólans fengu sveitarfélögin allt það fjármagn sem ríkið setti í rekstur sömu þátta og sveitarfélögin yfirtóku. Ef fullyrðing formanns KÍ myndi standast þá þýddi það að ríkið hefði rekið grunnskólann með 60% fjármögnun. Hvaðan komu þá þau 40% sem upp á vantaði til að starfrækja grunnskólann? Þetta gengur einfaldlega ekki upp hjá formanninum. Til viðbótar því fjármagni sem ríkið hafði sett til grunnskólans fyrir flutning fengu sveitarfélögin aukið fjármagn m.a. til að flýta fyrir einsetningu grunnskólans, uppbyggingu og rekstri mötuneyta og til að fjármagna fjölgun kennslustunda í áföngum.

Í samningnum við ríkið árið 1996 var ákvæði um að endurmeta kostnað og tekjuþörf sveitarfélaga árið 2000. Það var gert og voru bæði ríkið og sveitarfélögin sammála um að ekki væri ástæða til að breyta forsendum samningsins. Byggði sú niðurstaða m.a. á sérstakri úttekt á málinu sem endurskoðunarfyrirtækið KPMG gerði auk rannsóknar sem Ólafur Darri Andrason, núverandi hagfræðingur ASÍ, gerði. Þetta skýrist m.a. af því að þrátt fyrir að sveitarfélögin hafi veitt viðbótarfjármagni til skólanna til að auka þjónustuna styrktist útsvarsstofn þeirra svo mikið að þau höfðu góð efni á útgjaldaauka vegna bættrar þjónustu.

Aftur var gerð úttekt á stöðunni af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga árið 2007. Þá kom skýrt fram að sveitarfélögin höfðu ákveðið að verja enn stærri hluta tekna sinna til grunnskólans enda hafa þau sýnt mjög mikinn metnað á þeim vettvangi. Frá árinu 1997 til 2006 hafði stöðugildum kennara og stjórnenda í grunnskólum fjölgað um 1.455 eða 43,6% og öðru starfsfólki úr 1.281 í 2.174 eða um 69,7%. Á sama tíma fjölgaði nemendum úr 42.319 í 43.875 eða um 1.556 sem er 3,7% aukning. Þetta þýðir að á þessu tímabili fjölgaði um 1,5 stöðugildi starfsmanna fyrir hvern nemanda sem bættist við.

Skóli án aðgreiningar, fjölgun vikulegra kennslutíma, lægri kennsluskylda kennara, meiri sérfræðiþjónusta, aukin gæði stjórnunar og mörg fleiri verkefni sem aukið hafa gæði skólastarfsins valda þessari fjölgun með tilheyrandi kostnaði. Frábært starf kennara og stjórnenda við þróun þessarar þjónustu hefur verið mikilvægt sveitarfélögunum við að bæta skólastarfið og sinna nemendum betur en áður.

Sá grunnskóli sem sveitarfélögin starfrækja í dag er allt annar og betri grunnskóli en sveitarfélögin tóku við frá ríkinu. Er þessi þróun í takti við aðra þjónustu sem sveitarfélögin hafa verið að útfæra og bæta á liðnum árum. Þau gátu það vegna tekjuaukningar í góðæristímabilinu. Nú hefur því miður brostið á kreppuástand sem einfaldlega kallar á að undið sé að einhverju leyti ofan af því sem byggt var upp og finna þarf nýtt jafnvægi. Sveitarfélögin verða að hafa tekjur til að standa undir útgjöldum vegna þjónustu. Þau hafa kallað til verka starfsmenn sína til að aðstoða við þá vinnu og við vitum öll að ekki er hægt að undanskilja kennara og skólastarfið í þeim efnum. Öll sveitarfélög reyna að sjálfsögðu eins og kostur er að hlífa skólastarfinu. Þau reyna að forgangsraða í þágu grunnþjónustunnar en það þýðir ekki að hægt sé að komast hjá því að snerta útgjaldaliði hennar. Sveitarfélögin, líkt og ríkissjóður og allur almenningur, þurfa að endurskipuleggja rekstur sinn og lækka útgjöld vegna minni ráðstöfunartekna en áður.

Sveitarstjórnarfólk er áhugasamt um að starfrækja góða þjónustu. Það vill vel og það þarfnast stuðnings, samvinnu og skilnings, en ekki ósanngjarnra árása eins og fráfarandi formaður KÍ leyfir sér í fyrrgreindri blaðagrein.

 




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×