Skoðun

Hvaða valdi skal stjórnarskráin dreifa?

Jón Þór Ólafsson skrifar
Valddreifingar kröfur Þjóðfundarins á síðasta ári ganga eðlilega lengra en þrískipting Montesquieu á ríkisvaldinu. Þrískipting franska greifans var greiningarlíkan og gagnrýni á því hvar vald ríkisins var að finna fyrir tæpum þrjú hundruð árum. Hún er góð en ekki endanleg uppskrift af valddreifingu í ríkjum. Hún minnist ekki á að vald ríksins kemur frá fólkinu og því skuli eftir fremsta megni tryggja sjálfræði einstaklinga og beint lýðræði heildarinnar. Spyrjum því fyrst hvaða vald er réttlætanlegt að ríkið fái frá fólkinu áður en því er dreift á milli embætta stjórnkerfisins.



Þegar kemur að hugtakinu vald er íslenskan gegnsæ. Sá sem getur valdið, getur orsakað, hefur vald. Hvers konar vald ríki hafa kemur skýrt fram í almennt notuðu skilgreiningu Max Weber á hugtakinu ríki: „[Eitthvað er] ríki ef og að svo miklu leiti sem starfsmönnum stjórnkerfisins tekst að viðhalda einokun á beitingu lögmætts ofbeldis til að framfylgja sinni reglu.“



Hvorki George Washington né Mao Zedong, báðir æðstu menn og feður sinna ríkja, fóru í grafgötur með eðli ríkisvaldsins. Washington sagði: „Ríkisvaldið er ekki skilsemi, það er ekki fágun, það er afl, eins og eldur er það hættulegur þjónn og hræðilegur herra.“ Meðan Mao sagði að: „Pólitískt vald kemur úr hlaupinu á byssu.“



Vald ríkisins felst því í að geta með lögmætu ofbeldi valdið því sem stjórnendur þess vilja. Ef þú hlýðir ekki lögum ríkisins þá áskilur það sér rétt til að beita þig ofbeldi, svipta þig eignum og frelsi. Þetta er flestum ljóst en lítið rætt. En þetta er lykilatriði sem vekur upp grundvallar spurningar um valdsvið ríkisins.



Þegar kemur að því að semja og samþykkja nýja stjórnarskrá skulum við því spyrja okkur og svara heiðarlega: „Í hvaða tilgangi viljum við að meirihlutinn eða fulltrúar hans beiti fólki sem hlýðir þeim ekki ofbeldi?“




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×