Skoðun

Írum blæðir fyrir vanda evrunnar

Ásmundur Einar Daðason skrifar
Í síðustu viku var írskur fræðimaður að nafni Anthony Coughlan staddur hér á landi og hélt nokkra fyrirlestra. Anthony var gagnrýninn á sameiginlegt myntsvæði fyrir alla Evrópu. Reynslan sýndi að sameiginleg mynt gengi ekki upp án þess að vera með sameiginlega stefnu í ríkisfjármálum. Sameiginleg stefna í ríkisfjármálum gengi hins vegar ekki upp í ólíkum þjóðríkjum og því myndi sameiginlegt myntsvæði fyrir Evrópu aldrei verða langlíft.

ESB krefst ríkisvæðingar á skuldum einkabankaÍrskir bankar fengu líkt og þeir íslensku gríðarlegar fjárhæðir að láni hjá bönkum innan ESB og lánuðu síðan áfram á lágum vöxtum. Vegna mikilla skulda eru írskir bankar í verulegum erfiðleikum, líkt og þeir íslensku. Írar geta hins vegar ekki farið þá leið að setja einkabanka í þrot vegna þess að Seðlabanki Evrópu hefur gefið það út að enginn banki á evrusvæðinu megi fara þá leið. Af þessum sökum er almenningur að taka á sig gríðarlega háar fjárhæðir til bjargar bankakerfinu og hefur það aukið opinberar skuldir verulega. Á sama tíma búa Írar við evruna, sem hentar engan veginn írsku hagkerfi, hagvöxtur er mjög lítill, eftirspurn lítil og atvinnuleysi um 14%.

Dregið verði úr áhrifum aðildarríkjaÍrar, Grikkir, Spánverjar, Portúgalar o.fl. verða að taka á sig aukinn niðurskurð vegna bankabjörgunarstefnu Evrópusambandsins. Þjóðverjar, Frakkar, Finnar og fleiri eru ekki tilbúnir að axla auknar byrðar til að jafna kjörin í álfunni líkt og gerast myndi frekar innan hvers þjóðríkis. Líf evrunnar er í húfi og ráðamenn eru að átta sig á því að eina leiðin til björgunar er að stórauka bæði pólitískan og efnahagslegan samruna Evrópusambandsins.

Íslenskum stjórnvöldum hefur ekki tekist að leggja áherslu á atriði sem raunverulega skipta máli við núverandi aðstæður. En er aukinn efnahagslegur samruni og valdaafsal til Seðlabanka Evrópu rétta leiðin? Ekki samkvæmt reynslu Íra, Grikkja og fleiri ESB-ríkja.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×