Golf

Fær draumahöggið á par 4 holu ekki viðurkennt

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Ragnari gengur illa að ná löglegu draumahöggi.
Ragnari gengur illa að ná löglegu draumahöggi. Mynd/Ása B
Kylfingurinn Ragnar Davíð Riordan, klúbbmeistari Golfklúbbs Vatnsleysustrandar, getur sagt afkomendum sínum góða sögu af eftirminnilegu golfhöggi sem hann sló á 6. braut á Garðavelli á Akranesi síðastliðinn laugardag.

Ragnar var að keppa á hinu árlega Stóriðjumóti og hann ákvað að taka áhættuna og slá boltann inn á flöt í upphafshögginu á „Díkinu", sem er um 250 metra löng par 4 hola.

„Upphafshöggið var lélegt og fór langt til vinstri og nánast engar líkur að ég myndi finna boltann. Ég tók því bolta úr pokanum sem ég hafði fundið á 5. braut, alveg glænýr Tommy Armour, og ég tók bara dræverinn og fór aftur á teig til þess að slá þriðja höggið.

Höggið var ekkert sérstaklega vel hitt. Boltinn fór lágt af stað, flaug yfir vatnið, lenti á brautinni og þeyttist áfram af miklum krafti í átt að stönginni á flötinni. Ég sá ekki vel hvernig þetta endaði. Maður í ráshópnum á undan okkur sá að boltinn small af miklu afli í stönginni, þaðan fór boltinn beint upp í loftið og datt ofan í holuna. Ég trúði þessu varla en ég fékk því miður bara fugl á þessa holu þar sem ég var að taka þriðja höggið af teig," sagði Ragnar Davíð.

Hann fær ekki höggið talið sem „holu í höggi" þar sem hann hafði áður slegið upphafshögg og fengið vítishögg að auki. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ragnar upplifir það að fara holu í höggi án þess að fá það viðurkennt.

„Ég fór holu í höggi á skemmtivelli í Danmörku og hann var víst ekki löglegur fyrir slík högg. Það hlýtur að fara að koma að þessu," bætti Ragnar við en Tommy Armour-boltinn verður ekki sleginn aftur. Hann fer upp í hillu til minningar um eftirminnilegt högg.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×