Skoðun

Ruglingsleg umræða

Kristján Jóhannsson skrifar
Það verður erfitt að koma Evrópuumræðunni á Íslandi á vitrænt plan. Krónan er hrunin með skelfilegum afleiðingum fyrir landsmenn. Það er búið að sýna sig á áratuga notkun á krónunni. Hún hefur fallið um mörg þúsund prósent gagnvart þeirri dönsku á þeim árum sem hún hefur verið í notkun. Fyrir 80 árum var ein dönsk króna jafnvirði einnar íslenskrar krónu en nú er ein dönsk króna jafnvirði 2.500 íslenskra króna (þ.e. þeirrar gömlu).

Krónan á líklega eftir að hrynja enn þá meira í framtíðinni og þá þurfum við að fara að fækka núllunum aftur eins og við gerðum árið 1980. Við erum með verðtryggingu og hún virkar vel fyrir fjármagnseigendur en er skelfileg fyrir lántakendur í landi þar sem ráðamönnum gengur illa að hafa stjórn á efnahagsmálum. Í óðaverðbólgu og hruni er stórhættulegt, ef ekki glæpsamlegt, að hafa verðtryggingu sem þekkist varla í evruríkjunum. Líklega myndi Mannréttindadómstóll Evrópu banna svona gjörning.

Við erum með of hátt matarverð og alltof háa vexti og launin eru lægri en í flestum þeim Evrópulöndum sem við berum okkur saman við. Við erum í átthagafjötrum og ferðakostnaður til útlanda hefur tvöfaldast frá því fyrir hrun. Það er ekki nema lítill hluti þjóðarinnar sem hefur efni á að ferðast til útlanda. Og við næsta hrun krónunnar hafa enn færri Íslendingar efni á að ferðast. Benda má á að íbúð í Kaupmannahöfn sem var metin á 40 milljónir íslenskar fyrir hrun kostar eftir hrun 80 milljónir íslenskra króna. Er það þetta sem við viljum?

Þeir menn sem vilja slíta viðræðunum við ESB og ekki leyfa þjóðinni að kjósa um aðild ættu þá að vera sjálfum sér samkvæmir og leggja það til að við segðum okkur líka úr NATO. Þá getum við lokað landinu endanlega og sagt með rembingi „Ísland er aðeins fyrir Íslendinga“. Við viljum ekkert með útlendinga og útlönd hafa.

Hvorki evran, dollarinn né kínverski juaninn eru á förum. Leyfið okkur að kjósa um ESB!




Skoðun

Sjá meira


×