Handbolti

Arnór: Það bíða allir eftir því að við töpum leik

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Arnór fékk aftur harpix á puttana um helgina.mynd/ole nielsen
Arnór fékk aftur harpix á puttana um helgina.mynd/ole nielsen
Landsliðsmaðurinn Arnór Atlason spilaði í fimm mínútur um helgina í öruggum sigri Danmerkurmeistara AGK á Skjern. Þetta var fyrsti leikur Arnórs með liðinu á þessari leiktíð en hann hefur ekkert spilað síðan hann lék með landsliðinu í sumar. Arnór tognaði illa á læri í upphafi æfingatímabilsins og hefur verið talsvert lengi frá síðan.

„Þetta er búið að vera bölvað basl. Ég æfði aðeins tvisvar fyrir leikinn og gerði allt til þess að vera til taks. Það var kannski ekki mjög skynsamleg ákvörðun að spila en þetta slapp. Það var æðislegt að komast aftur á völlinn og gott að vinna Skjern örugglega en það er eitt af betri liðunum í deildinni og þeir segjast vera orðnir svo góðir. Hafa aðeins verið að rífa kjaft og það var fínt að þagga niður í þeim,“ sagði Arnór.

Jafnt var í tölum í fyrri hálfleik en AGK tók völdin í síðari hálfleik og vann öruggan sigur, 28-20. Arnór gerir ráð fyrir því að Bjerringbro veiti AGK mesta keppni í vetur en Skjern, Álaborg og Kolding komi þar á eftir.‘

Arnór segir að það sé frábær stemning í kringum danska ofurliðið sem fyrr. Fram undan er spennandi þáttaka í Meistaradeildinni og athygli fjölmiðla á liðinu mikil sem fyrr.

„Það var stútfullt hús og stemning. Allur hópurinn er tilbúinn í slaginn og menn bíða spenntir eftir Meistaradeildinni. Það eru margar sterkar týpur í þessu liði. Sigurvegarar þannig að það er mikil keppni og enginn slakar á. Við megum það ekki heldur enda bíða allir eftir því að við töpum leik. Liðin á Jótlandi tala fjálglega um að þau ætli að vinna okkur og það er bara frábært.“

Alls eru fjórir Íslendingar í liði AGK í vetur. Arnór og Snorri Steinn Guðjónsson voru þar fyrir og í sumar gengu þeir Guðjón Valur Sigurðsson og Ólafur Stefánsson í raðir liðsins.

„Það er frábært að fá þá. Þeir eru fyrst og fremst heimsklassaleikmenn sem styrkja liðið. Óli hefur ekkert verið með en Gaui gefur okkur 5-6 aukamörk úr hraðaupphlaupum í leik, sem er snilld. Þeir styrkja liðið mikið og gaman að fá þá,“ sagði Arnór Atlason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×