Skoðun

Ásættanlegur farvegur í samstarfi skóla og kirkju

Bjarni Karlsson skrifar
Nú hefur borgarráð ályktað í hinu langdregna og sérstaka máli er varðar samskipti reykvískra skóla við trú- og lífsskoðanafélög. Það góða er að niðurstaðan felur í sér samráðsferli sem skuli fara fram. Þar með er viðurkennt að það þurfi að ræða þessi mál betur á breiðum faglegum og félagslegum grundvelli.

Eins ber að fagna því að nú eru reglurnar settar af borgarráði sjálfu en ekki af mannréttindaráði, og málefninu vísað til Skóla- og frístundasviðs þar sem það á betur heima, um leið og mannréttindaráð hefur sínu mikilvæga eftirlitshlutverki að gegna.

Reglurnar sem nú hafa verið samþykktar bera ekki með sér þóttann og andúðina sem upphaflegur texti mannréttindaráðs fól í sér og margt hefur verið fært til betri vegar. Reiknað er með prestum sem fagmönnum í hópi annarra fagmanna í tengslum við sorgarúrvinnslu. Gert er ráð fyrir því að sóknarkirkjur standi áfram við hlið annarra félaga sem bjóða börnum hollar tómstundir í skólahverfinu er kemur að kynningarmálum. Ekki er lagt bann við ferðum fermingarbarna með kirkjum sínum og fleira gott mætti nefna. Auk þess er áfram í textanum sú klára afstaða sem enginn deilir um að skólinn sé ekki vettvangur trúboðs og að allir sem hann heimsækja geri það á forsendum skólans.

Þrennt þarf að ræða í samráðsferlinu aðminni hyggju:

Viljum við samnýta skólahúsnæði úti í hverfunum með íþróttafélögum, skátum og tónskólum en hafna samvinnu við sóknarkirkjur á því sviði eins og gert er ráð fyrir í nýju reglunum?

Viljum við hafna þeirri menningargjöf sem Gídeonmenn hafa fært 10 ára börnum í meira en 60 ár með því að afhenda Nýja testamenntið eða eigum við að finna tilboði þeirra hæfilegan farveg á forsendum skólans?

Viljum við banna börnum þátttöku í helgisiðum og athöfnum er þau heimsækja sóknarkirkjuna í hverfinu sínu? Hvernig líður okkur með það að banna barni að signa sig eða segja Faðirvorið sem því hefur verið kennt?

Í þessu öllu þarf að gæta hófs og það er hlutverk okkar sem samfélags.

Með afgreiðslu málsins hefur borgarráð sýnt ábyrgð sem lýðkjörið yfirvald og vísað þessu umdeilda máli í ásættanlegan farveg þar sem upplýst og vönduð umræða getur átt sér stað. Markmið okkar er að umfaðma fjölbreytileika mannlífsins í einingu. Lausnin mun finnast í röklegu samtali, faglegu samráði og gagnkvæmri háttvísi.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×