Körfubolti

Sigrar hjá Snæfelli og KR

Jón Júlíus Karlsson skrifar
Marcus Walker skoraði 30 stig í kvöld.
Marcus Walker skoraði 30 stig í kvöld. Mynd/Daníel
Þrír leikir fóru fram í Iceland Express deild karla í körfubolta í kvöld. Snæfell er áfram í efsta sæti deildarinnar eftir góðan sigur á ÍR, 98-84, í Stykkishólmi í kvöld.

Sveinn Arnar Davíðsson var stigahæstur í liði Snæfells með 21 stig, Jón Ólafur Jónsson var með 20 stig og 13 fráköst, og Sean Burton með 19 stig. Hjá ÍR var Nemanja Sovic atkvæðamestur með 29 stig og James Bartolotta skoraði 19 stig.

KR tók á móti KFÍ í DHL-höllinni í kvöld og vann góðan sigur, 100-86. KR þurfti að hafa fyrir sigurinum því KFÍ leiddi í hálfleik 47-55. Athygli vekur að hjá KFÍ skorar íslenkskur leikmaður aðeins eitt stig í kvöld en 85 stig eru skoruð af erlendum leikmönnum.

Marcus Walker átti góðan leik hjá KR og skoraði 30 stig. Hreggviður Magnússon og Finnur Atli Magnússon skoruðu 16 stig hvor og tók Finnur auk þess 11 fráköst. Hjá KFÍ skoraði Marco Milicevic 27 stig og Craig Schoen skoraði með 17 stig. Guðni Páll Guðnason var eini íslenski leikmaðurinn sem komst á blað hjá KFÍ í kvöld með eitt stig en alls leika sjö erlendir leikmenn með KFÍ.

Hamar vann spennusigur á Tindastóli á heimavelli sínum, 83-81 í Hveragerði. Eftir leiki kvöldsins er Snæfell efst í deildinni með 30 stig en KR er í öðru sæti með 28 stig. Grindavík og Keflavík koma í næstu sætum með 24 stig en þau leika á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×