Formúla 1

Fréttaskýring: Áhrif dekkjanna á keppnina í F1

Birgir Þór Harðarson skrifar


Það er ekki tekið út með sældinni að vera ökuþór í Formúlu 1 í sumar því Pirelli-dekkin hafa gert leikinn enn flóknari en hann var. Dekkin eru hönnuð þannig að þau endast skemur og árangurinn sem kreista má úr nýjum dekkjum er mun meiri en úr notuðum dekkjum. Þannig hefur leikurinn verið gerður jafnari með því að kasta öllum liðum og starfsfólki þeirra á byrjunarreit.

Bruno Senna, ökumaður Williams-liðsins, sat fyrir svörum í vefútgáfu breska kappaksturstímaritsins Autosport fyrir skemmstu og fjallaði þar um árangur sinn í sumar og muninn milli hans og liðsfélagans Pastor Maldonado.

Maldonado hefur gjörsamlega gengið frá Senna í sumar. Maldonado sjálfur hefur sagt við fjölmiðla að hann skilji Pirelli-dekkin betur en aðrir. Bruno Senna er þó ekki alveg sammála því og segir ökulag Maldonado henta dekkjunum betur en ökulag annarra ökuþóra í Formúlu 1 í ár.

„Ökustíll Pastors er mjög vel stilltur inn á dekkin og uppsetning bílsins hefur verið góð hjá honum. Það eru svið sem ég hef ekki náð að standa mig á, sérstaklega þegar við komum á brautir þar sem hitastigið er hátt," sagði Senna.

„Pastor getur ekið hringinn án þess að krefjast of mikils af dekkjunum. Hann leggur ekki eins mikla orku í þau og ég. Þar sem hitastigið er hátt er ég fljótlega kominn út fyrir „árangursglugga" dekkjanna og hringtíminn fer upp úr öllu valdi."

„Þetta snýst um að stilla bílnum upp þannig að hann henti þínum ökustíl," segir Senna. „Það verður að finna jafnvægið milli framendans og afturendans: Hversu mikla vængpressu má ég setja á framendann til að ná góðum tímatökuhring án þess að skerða möguleikana í keppninni."

„Þegar við notuðum Bridgestone-dekk var ég vanur að hafa bílinn hlutlausan í hvert skipti. Þannig vil ég aka. Pirelli-dekkin leyfa mér það hins vegar ekki því það mun rústa afturdekkjunum í keppni."



Áherslan lögð á afturdekkinBruno vill meina að allir ökuþórarnir hafi þurft að endurhugsa það hvernig þeir aka og aðlagast nýjum forsendum. Það hafi hentað sumum betur en öðrum. „Við erum að reyna að vernda afturdekkin án þess að vera of hægir í tímatökum. Það er ekki auðvelt að gera, sérstaklega þegar maður þarf að hugsa um það á meðan maður ekur. Ég hef ekki ekið eftir eðlishvötum í allt sumar."

Þegar horft var á þýska kappaksturinn fyrir viku síðan mátti sjá að Fernando Alonso á Ferrari og Sebastian Vettel á Red Bull (ásamt fleirum) höfðu stillt bílum sínum upp þannig að þeir væru undirstýrðir. Það þýðir að veggrip bílsins er minna að framan en aftan.

Alonso og fleiri sáust því oft fara útfyrir brautina í Hockenheim um síðustu helgi. Þeir hafa að öllum líkindum stillt bílum sínum þannig upp því þeir einfaldlega vissu ekki hvernig bíllinn mundi fara með afturdekkin á brautinni annars. Enginn hafði ekið nógu lengi í þurru veðri á æfingum til að geta haft upplýsingar um þetta.

Þegar bíll er undirstýrður í beygju leitar framendinn út úr beygjunni á undan afturendanum. Það getur verið mjög pirrandi fyrir ökuþór að aka undirstýrðum bíl því oft á tíðum virkar það eins og að hann hlýði ekki stýrinu. Aftur á móti, þegar bíll er yfirstýrður þá er veggrip bílsins að aftan minna en að framan. Afturendi bílsins mun þá leita fyrr út úr beygju en framendinn.

Sé bíllinn yfirstýrður ferð það illa með afturdekkin. Sé bíllinn hins vegar undirstýrður fer það illa með framdekkin. Jafnvægið á milli þessara kosta er það sem ökumenn þurfa að finna hverja keppnishelgi án þess að það komi niður á hraða bílsins.



Vandi þeirra bestu
Button hefur þurft á öllum sínum hæfileikum og vitsmunum að halda til að aðlagast kröfum nýju dekkjanna.Nordicphotos/afp
Hluti málsins liggur því í meðfæddum hæfileikum ökumanna til að aðlagast breyttum forsendum í ár. Sumir hafa hins vegar verið heppnari með þetta en aðrir og Bruno segir liðsfélaga sinn hafa dottið í lukkupottinn.

Pirelli-gúmmíið virðist virka best undir þeim ökumönnum sem lágmarka þann tíma sem þeir setja mesta orku í dekkin, til dæmis þegar verið er að beygja. Sem dæmi getum við tekið Maldonado sem er náttúrulega mjög óvæginn þegar hann beygir inn í beygjurnar. Hann tekur beygjurnar í stuttum hreyfingum á brautinni, tekur beygjurnar með þrengra horni en aðrir. Þannig takmarkar hann þá orku sem hann þarf að leggja á dekkin og verndar dekkin sín betur.

Ökuþórar eins og Jenson Button og Bruno Senna hafa alla tíð ekið með vægnari hætti, notað silkimjúkar hreyfingar og yfirvegun í öllum aðgerðum. Það leiðir hins vegar af sér að aðkoma í beygjur verður grynnri en ella, þ.e. þeir taka víðari línu í gegnum beygjurnar og eru í raun lengur að stýra bílnum í óbeina línu. Orkan sem þeir leggja á dekkin (þá sérstaklega afturdekkin) er kannski minni en er í lengri tíma og það fer sérstaklega illa með dekkin. Þau hitna og skemmast fyrr.

„Þetta er svolítið svoleiðis að dekkin eru í raun ekki mikið fyrir að beygja. Þau vilja taka stefnubreytingar á eins skömmum tíma og hægt er," segir Senna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×